Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2014, Page 77
76
Listræna kvikmyndin
Undir lok sjötta áratugarins kom til sögunnar ný gerð af frásagnarmynd,
sem nefnd hefur verið listræna kvikmyndin, og átti tveggja áratuga blóma-
skeið þar til tók að fjara undan henni um miðbik áttunda áratugarins.28
Það er einkar upplýsandi að þessi róttæku umskipti á frásagnarmyndinni
skuli hafa verið kennd við módernisma, jafnvel þótt þau hafi átt lítið skylt
við módernísku myndir þögla skeiðsins. Gefur það til kynna að ekki hafi
myndast almenn sátt eða hefð um að kenna þessar eldri hreyfingar við
módernisma.
Fá ummerki eru um að helstu leikstjórar listrænu kvikmyndarinn-
ar hafi leitað fyrirmynda til hreyfinga eða framúrstefnu þöglu áranna.29
Forsaga hennar er fremur talin liggja í ítalska nýraunsæinu sem strax í lok
seinni heimsstyrjaldar hafnaði hefðbundnum frásagnarformúlum afþrey-
ingarmynda og tók að glíma við knýjandi samfélagsvandamál utan kvik-
myndaveranna og oft með almenna borgara í aðalhlutverkum. Skipti ekki
síður máli að nýraunsæið fangaði athygli bæði kvikmyndagerðarmanna og
áhorfenda út um heim allan. En hreyfingin gerði það á forsendum raunsæ-
is; módernistarnir áttu svo eftir að fjarlægjast raunsæið skref fyrir skref
með afbyggingu á frásögn, umhverfi og persónum í anda módernískra
bókmennta, sem nú voru teknar til fyrirmyndar í stað myndlistarinnar
forðum. Á Ítalíu má bókstaflega greina þetta ferli í höfundarverki leikstjór-
anna Roberto Rossellini, Federico Fellini, Luchino Visconti, Michelangelo
Antonioni og Pier Paolo Pasolini sem allir áttu rætur í nýraunsæinu með
einum eða öðrum hætti áður en þeir urðu að einhverjum áhrifaríkustu
28 Ég fylgi hér þýðingu Guðna Elíssonar á „art cinema“ sem listræna kvikmyndin. Sjá
frekar um einkenni hennar í þýðingu Guðna á grein Davids Bordwell „Listræna
kvikmyndin sem aðferð í kvikmyndagerð“, Kvikmyndagreinar, ritstj. Guðni El-
ísson, Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2006, bls. 46–64. Rétt er þó að hafa í huga, líkt
og kemur skýrt fram í grein Bordwells, að með enska hugtakinu er átt við eitthvað
takmarkaðra en listræna kvikmynd almennt séð. Það vísar til ákveðinnar gerðar af
kvikmyndum sem búa yfir áþekkum eiginleikum ekki ósvipað og kvikmyndagrein.
Að sama skapi býr enska hugtakið ekki yfir sömu upphafningu og það íslenska, enda
þurfa samkvæmt þessum skilningi ekki öll verk sem falla undir „listrænu kvikmynd-
ina“ að vera sérstaklega góð eða jafnvel listræn – hugtakið tekur ekki afstöðu til
gæða myndanna sem það vísar til.
29 Á því er þó ein mikilvæg undantekning en í samfélagslegu umróti sjöunda áratug-
arins þróaðist afbrigði af listrænu kvikmyndinni sem kennt hefur verið við pólitísk-
an módernisma og sótti um margt í smiðju sovésku myndfléttunnar. Mætti í því
sambandi nefna leikstjórana Jean-Luc Godard og Nagisa oshima.
BJöRN ÆGIR NoRðFJöRð