Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2014, Page 78
77
leikstjórum listrænu kvikmyndarinnar.30 Áþekku mætti halda fram um
leikstjóra á borð við Ingmar Bergman, Andrei Tarkovskí og Agnèsi Varda.
Leikstjórar sem hófu feril sinn eftir tilkomu módernismans þurftu engrar
aðlögunar við og má í því sambandi telja upp höfunda á borð við Jean-Luc
Godard, Rainer Werner Fassbinder, Dušan Makavejev, Chantal Akerman
og Nagisa oshima. Þetta eru þó aðeins einstaka nöfn af leikstjórafjöld
sem teygði sig yfir alla Evrópu frá Spáni til Sovétríkjanna og þaðan yfir
til Japans, og staðfestir hversu miklu yfirgripsmeira og fjölbreyttara svið
listrænu kvikmyndarinnar var í samanburði við þær afmörkuðu hreyfingar
sem einkenndu módernisma þöglu áranna.
Metnaðarfyllsta tilraunin til að ná utan um fagurfræði þessa víð-
áttumikla fyrirbæris er bók András Bálint Kovács Screening Modernism:
European Art Cinema 1950–1980. Líkt og titill hennar gefur til kynna er
Kovács þeirrar skoðunar að módernisminn sé skýrt afmarkað tímabil í
sögu kvikmyndalistarinnar og einkum bundinn við Evrópu. Hann afneitar
ekki tilvist framúrstefnunnar og þöglu hreyfinganna en telur módernisma
þeirra ekki snúa að kvikmyndamiðlinum; ráðandi hefð hafi vantað sem
nýrri verk gátu brugðist við. Það sé af þeim sökum sem módernismi þöglu
áranna hafi fyrst og fremst átt í samræðu við aðra listmiðla en ekki forsögu
eigin miðils og hefða hans.31
Hinar ólíku kvikmyndir tímabilsins sem Kovács ræðir eiga það aftur á
móti sameiginlegt að bregðast við hefðbundnu formi (og stundum efni)
leikinna frásagnarkvikmynda. Í því samhengi skipta þrír eiginleikar hann
mestu máli: óhlutbundin afstaða (e. abstraction) sem leggur áherslu á til-
búna framsetningu þess raunveruleika sem birtist í myndinni, huglægni (e.
subjectivity) sem sýnir framsetninguna sem listrænt framlag höfundar, og
sjálfhverfni (e. reflexivity) sem dregur athygli áhorfandans að þessum þátt-
um og sérstöðu listaverksins í ljósi hefðarinnar.32 Þessir almennu eiginleik-
ar geta síðan birst með margvíslegum hætti, til að mynda gátu módernistar
hert á einingu frásagnarinnar (til dæmis með löngum tökum) ekki síður en
sundrað henni (til dæmis með myndfléttu), en hvort tveggja stingur í stúf
30 Sjá um ítalska nýraunsæið hjá Peter Bondanella, A History of Italian Cinema, New
York og London: Continuum Books, 2009, bls. 61–158, og arfleifð þess í ítalskri
kvikmyndagerð hjá Millicent Marcus, Italian Film in the Light of Neorealism,
Princeton: Princeton University Press, 1986.
31 András Bálint Kovács, Screening Modernism: European Art Cinema 1950–1980,
Chicago: The University of Chicago Press, 2007, bls. 16–17.
32 Sama heimild, bls. 204. Ég fylgi hér texta Kovács nokkuð náið eftir en hef þó dregið
efni hans töluvert saman þannig að ekki er um beina tilvitnun að ræða.
FRÁ FRAMÚRSTEFNU TIL HÁTÍðARMYNDA