Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2014, Page 80
79
og Karlovy Vary árið 1946, Edinborg 1947, Berlín 1951, San Sebastian
1953 og Moskvu 1959.36 Hátíðirnar voru ekki aðeins mikilvægur þáttur
í því að efla enn frekar virðingu miðilsins, meðal annars með margvísleg-
um verðlaunaafhendingum, heldur urðu þær miðja sýningar- og dreif-
ingarnets sem stóð til hliðar við almenna dreifingu á leiknum frásagn-
armyndum. Hátíðirnar áttu stóran þátt í því greiða leið kvikmyndalistar
sem laut öðrum lögmálum en stýrðu almennri kvikmyndagerð, en ólíkt
rithöfundum og myndlistarmönnum voru (og eru) hendur kvikmynda-
gerðarmanna bundnar af háum framleiðslukostnaði. Á meðan módern-
istar þöglu áranna stóðu alfarið innan eða utan kvikmyndaiðnaðarins hafði
nú myndast hálfgerður hliðariðnaður sem gerði fjölmörgum leikstjórum
kleift að gera leiknar frásagnarmyndir með módernískum áherslum.
Alþjóðlega hátíðarmyndin
Fjórða og síðasta viðmiðið er jafnframt það sem er sjaldnast rætt undir
formerkjum módernisma, og segja má að alþjóðlega hátíðarmyndin eigi
síður rétt á sjálfstæðri flokkun þar sem hún þróast í beinu framhaldi af
listrænu kvikmyndinni. András Bálint Kovács staðhæfir til að mynda þegar
í upphafi Screening Modernism að þótt listræn kvikmyndagerð blómstri
enn þann dag í dag sé módernisminn allur.37 Í raun má segja að hér búi
undir algert lykilatriði í skilgreiningu á módernisma sem annars vegar
fagurfræðilegu (með áherslu á formræn einkenni) og hins vegar sögu-
legu hugtaki (afmörkun við ákveðið tímabil).38 Sé það síðarnefnda haft
að leiðarljósi má vel færa rök fyrir því að módernismi í kvikmyndagerð
hafi verið við lýði á árunum 1950–1980, svo miðað sé við tímasetningu
Kovacs, en greining hans á módernisma í kvikmyndum er þó fagurfræðileg
fremur en söguleg. Hin sögulega afmörkun virkar því oft þvingandi og er
raunar helsti veikleikinn á bók Kovacs, sem ræðir til að mynda Krzysztof
Kieslowski sem póstmódernista í sömu andrá og Quentin Tarantino og
36 Sjá um hlutverk og sögu kvikmyndahátíða hjá Marijke de Valck, Film Festivals:
From European Geopolitics to Global Cinephilia, Amsterdam: University of Amsterdam
Press, 2008, bls. 13–43. Þá hefur Tino Balio lýst umtalsverðum áhrifum listrænna
kvikmynda á bandaríska kvikmyndamenningu í The Foreign Film Renaissance on Am-
erican Screens 1946–1973, Madison: The University of Wisconsin Press, 2010.
37 András Bálint Kovács, bls. 2.
38 Ljóslega mótast flestar skilgreiningar á módernisma af bæði sögulegum og fag-
urfræðilegum þáttum, og því væri nákvæmara að segja að málið snúist um hvorir
þeirra séu ráðandi.
FRÁ FRAMÚRSTEFNU TIL HÁTÍðARMYNDA