Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2014, Page 82
81
þar sem í meðförum hennar lúta form eða stíll myndarinnar enn þá
frásögninni jafnvel þótt útfærslunni sé gert hærra undir höfði en í hefð-
bundnum leiknum frásagnarmyndum. Í breytufrásögn býr form mynd-
arinnar aftur á móti yfir sjálfstæði og getur útfært myndina án tillits til
fléttunnar, og greinir Bordwell í því sambandi á milli tveggja leiða. Með
„meinlætaleiðinni“ (e. ascetic) neitar kvikmyndagerðarmaðurinn sér um
ákveðnar tjáningaraðferðir, líkt og lit, tónlist, nærmyndir eða hreyfingu
tökuvélar. Með „birgðaleiðinni“ (e. replete) beitir hann hins vegar fyrir sig
blöndu af ólíkum aðferðum, skiptir kerfisbundið út stílrænum brögðum
fyrir önnur við miðlun frásagnarinnar.43 Formrænar útfærslur í kvikmynd
Alain Resnais Hirósíma ástin mín (1959, Hiroshima mon amour) má túlka í
ljósi sálfræði aðalpersóna myndarinnar, en því er ekki fyrir að fara í mynd
hans Síðasta ár við Marienbad (1961, L’Année dernière à Marienbad ) þar sem
stíllinn verður ekki útskýrður í ljósi tilfinninga persóna eða fléttu – með
skilgreiningar Bordwells að leiðarljósi hefur breytufrásögn leyst af hólmi
listræna.
Rétt er að halda því til haga að Bordwell hafnar því sérstaklega að nota
módernisma-hugtakið yfir „breytumyndir“, meðal annars af þeirri ástæðu
að breytumyndirnar séu ekki bundnar við afmarkað tímabil.44 Kovacs hins
vegar samlagar breytufrásögn og listræna sem helstu einkenni kvikmynda
á móderníska skeiðinu. Betz telur það framfaraskref, en hafnar hins vegar
sögulegri aðgreiningu Kovacs. Máli sínu til stuðnings telur hann upp
fjölda leikstjóra bæði innan og utan Evrópu, samanber „erfiðu“ leikstjór-
ana sem minnst var á hér að framan, sem aðhyllast enn í dag breytufrásögn
í kvikmyndagerð sinni.
Hvað varðar þessa samantekt á ólíkum viðmiðum á módernisma í kvik-
myndum er eftirfarandi lykilatriði: fyrstu þrjú takmörkuðust mikið til við
Evrópu en þetta fjórða og nýjasta viðmið tilheyrir heimsbíóinu.45 Formið
kann að vera áþekkt og í listrænu kvikmynd áratuganna 1950–1980, en
sögulega, samfélagslega og pólitískt séð er um kúvendingu að ræða. Nú
horfa unnendur listrænna kvikmynda út um allan heim ekki aðeins á evr-
ópskar myndir (auk Hollywood-mynda að sjálfsögðu), heldur á kvikmynd-
ir frá öllum heimsálfum. og kvikmyndirnar er ekki lengur aðeins að finna
á kvikmyndahátíðum (sem hefur haldið áfram að fjölga og dreifast nú
sömuleiðis um heiminn allan) heldur einnig á myndböndum og -diskum,
43 Sama heimild, bls. 285.
44 Sama heimild, bls. 310.
45 Sjá grein mína um heimsbíó í Ritinu 2/2010, bls. 9–34.
FRÁ FRAMÚRSTEFNU TIL HÁTÍðARMYNDA