Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2014, Page 141
140
og Fréttablaðinu.13 Athugasemdir háskólakennaranna við meðferð kæru-
málsins voru staðfestar af óháðri nefnd sem háskólaráð skipaði vorið 2011
til þess að fara yfir málsmeðferðina alla14 og Félagi prófessora við ríkishá-
skóla sem sendi frá sér ályktun vorið 2012 þar sem allir siðanefndarfull-
trúarnir voru sagðir ábyrgir fyrir brotum í málsmeðferðinni.15 Ennfremur
færðu háskólakennararnir ýmis efnisleg rök fyrir því að Bjarni Randver
hefði á engan hátt gerst brotlegur við siðareglur HÍ og lögðu fram ítar-
legar greinargerðir máli sínu til stuðnings. Þessi niðurstaða háskólakenn-
aranna var í samræmi við ályktun siðanefndarinnar sem tók fyrir kærumál
3/2012.
Eins og leitast verður við að sýna fram á í þessari grein má halda því
fram að kærumálið í heild sinni og samfélagsátökin sem fylgdu verði vart
skilin nema með hliðsjón af þeim félagsfræðilegu greiningarkerfum og
skilgreiningum sem lágu nýtrúarhreyfinganámskeiðinu til grundvallar en
færa má rök fyrir því að kærendurnir hafi brugðist við með þeim hætti
sem þeir gerðu vegna þess að þeir töldu hugmyndafræðilegum málstað
sínum ógnað. Annars vegar ræddi Bjarni skilgreiningar á trúarhugtak-
inu í námskeiðinu sem ganga út frá inntaki trúaratriðanna (innihaldsskil-
greiningar; e. substantive definitions) og svo hins vegar út frá því félags-
lega hlutverki sem trú og trúarbrögð gegna í lífi fólks og samfélaginu
öllu (hlutverkaskilgreiningar; e. functional definitions).16 Í kennslunni sýndi
13 „Yfirlýsing vegna kæru á hendur Bjarna Randveri Sigurvinssyni“, Fréttablaðið, 13.
desember 2011, bls. 18; Morgunblaðið, 13. desember 2011, bls. 20. Í yfirlýsingunni
segir: „Af máli ýmissa Vantrúarfélaga má ráða að gagnrýni háskólamanna á meðferð
kærumálsins beinist gegn Vantrú og einstaklingum sem styðja þau samtök. Það er
rangt. Gagnrýnin beinist að vinnuaðferðum siðanefndar í málinu. Einstaklingum,
fyrirtækjum og félagasamtökum hlýtur að vera frjálst að gagnrýna það sem fram
fer innan veggja HÍ, en að sama skapi ber skólanum sem akademískri stofnun að
standa vörð um það mikilvæga starf sem þar fer fram og vernda starfsmenn sína
fyrir óréttmætum ásökunum og óeðlilegum þrýstingi.“
14 Sjá „Skýrsla óháðrar nefndar um mál siðanefndar Háskóla Íslands nr. 1/2010,
aðdraganda þess og málsmeðferð“. Nefndina skipuðu þau þau Elín Díanna Gunn-
arsdóttir, dósent við félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri, Sigurður Þórðarson,
fyrrverandi ríkisendurskoðandi, og Þórhallur Vilhjálmsson, yfirlögfræðingur Al-
þingis: http://www.hi.is/files/skjol/stjornsysla/haskolarad/Skyrsla_um_mal_sida-
nefndar_HI_nr1_2010.pdf [sótt 10. maí 2014].
15 „Ályktun Félags prófessora við ríkisháskóla vegna umkvörtunar Vantrúar á hend-
ur Bjarna Randver Sigurvinssyni, kennara við Guðfræðideild HÍ“, 3. apríl 2012:
http://professorar.hi.is/files/lyktun%20Félags%20prófessora_4.pdf [sótt 10. maí
2014].
16 Hlutverkaskilgreiningar eru einnig þýddar sem virkniskilgreiningar á íslensku.
GuðNi ElíssoN