Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2014, Page 160
159
spenntur vilja lesa raunverulega fræðilega úttekt guðfræðings á
Vantrú sem unnin væri af yfirvegun og hlutleysi. En það sem Bjarni
Randver gerði (alla vega það sem ég sá) átti að mínu viti frekar heima
á ráðstefnu prestafélagsins, sem frekar grunnhygginn áróður og
viðspyrnuhvatning til jábræðra. Enda er það kannski meinið, guð-
fræðideild er jú hálfgert anddyri prestastéttarinnar og kannski hefur
Bjarni Randver misst sjónar á því að hann var að kenna í Háskóla
Íslands, sem fræðimaður, en ekki í samkomu trúvarnarmanna, sem
einn meðal annarra jábræðra.69
Hugmyndir Brynjólfs eru ekki nýjar af nálinni. Formaður siðanefndar HÍ
setti fram svipað sjónarmið í Morgunblaðinu eftir að vinnubrögð hans kom-
ust í hámæli. Ekki verður annað séð en prófessor Þórður Harðarson sam-
sinni þeim rökum vantrúarfélaga að guðfræðingar séu óhæfir til kennslu á
því sviði sem Bjarni hefur sérhæft sig í, en Þórður segir: „Bentu þeir á, að
mikil ábyrgð væri lögð á íslenska guðfræðinga af lútersskóla að fjalla um
trúarhreyfingar, sem þeir virtu e.t.v. ekki mikils. Aðrir héldu því fram, að
trúarhreyfingum ætti að gera skil á vettvangi heimspeki frekar en hefð-
bundinnar guðfræði.“70
Hér verður sú merkilega fullyrðing Brynjólfs ekki tekin til greiningar
að fræðin sem stunduð eru innan Guðfræði- og trúarbragðafræðideildar
séu í „eðli sínu afsökunarfræði“,71 en af orðum hans má þó draga þá álykt-
un að hann þekki lítið til þess starfs sem unnið er í guðfræði- og trúar-
bragðafræðideildum við alvöru rannsóknarháskóla á Vesturlöndum. Hér
vegur þó þyngst að Brynjólfur hafði ekki frekar en aðrir vantrúarfélagar
fyrir því að kynna sér fræðileg markmið námskeiðsins umtalaða á þeim
tæplega þrjátíu mánuðum sem liðu frá því að undirbúningur kærumálsins
hófst og þar til hann lagði orð í belg. Í raun kemur á óvart að aldrei hafi
farið fram málefnaleg umræða um þær forsendur sem lágu að baki nám-
skeiðinu meðal gagnrýnenda Bjarna Randvers, en námskeið hans stendur
mun traustari fótum í félagsfræði en guðfræði.
69 Sjá athugasemd Brynjólfs Þorvarðarsonar (kl. 13.04, 16. janúar 2012) við færslu
Hörpu Hreinsdóttur, „Vantrú“, 14. janúar 2012: http://harpa.blogg.is/2012-01-14/
vantru/ [sótt 20. janúar 2012].
70 Þórður Harðarson, „Greinargerð í siðanefndarmáli“, bls. 21.
71 Jafnvel hörðustu gagnrýnendur kristindóms í íslenskri menningarsögu ganga ekki
svona langt. Níels Dungal fjallar t.d. ítarlega um fræðilegar aðferðir í biblíurann-
sóknum í 10. kafla Blekkingar og þekkingar „Frá villutrú til vísindalegra biblíurann-
sókna“, Reykjavík: Helgafell 1948.
FÚSK, FÁFRÆðI, FoRDÓMAR?