Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2014, Page 161
160
Grunnforsenda trúarlífsfélagsfræðilegrar greiningar er að trúarbrögð
í öllum sínum birtingarmyndum séu félagsleg. Þau eigi sér félagslegar
rætur, séu háðar félagslegum aðstæðum, gegni félagslegu hlutverki og þró-
ist með þjóðfélaginu í heild. Markmið trúarlífsfélagsfræðilegrar greiningar
er að öðlast fyllri skilning á hlutverki og áhrifum trúar og trúarbragða í lífi
einstaklinga, á heimsmynd manna og í samfélaginu öllu. Hvorki er tekin
afstaða með né á móti sannleiksgildi trúarsetninga heldur beinist grein-
ingin að félagslegu vægi þeirra og virkni með eins hlutlægum og sann-
gjörnum hætti og kostur er. Trúarlífsfélagsfræðileg greining einkennist því
af aðferðafræðilegu trúleysi enda verða trúarlegar sannleiksfullyrðingar
ekki sannreyndar með aðferðafræði félagsvísinda.72 Bókalisti námskeiðs
Bjarna ber þessari nálgun glöggt vitni ekki síður en námskeiðslýsingin, en
hana er hægt að nálgast á heimasíðu HÍ. Þar segir m.a.: „Fjallað verður um
tilurð þessara trúarhreyfinga, sögu þeirra og hugmyndafræði og gerð grein
fyrir félagslegri stöðu þeirra bæði hér heima og úti í heimi. Sérstök áhersla
verður þó lögð á að skilgreina grundvallartrúarhugtök þessara trúarhreyf-
inga og kynna helstu kenningarnar um félagslegar forsendur þess að þær
geti breiðst út og náð áhrifum.“ Í liðnum „þekking og skilningur“ kemur
fram að nemendur verði að þekkja:
Helstu kenningar trúarbragðafræðinga um nýtrúarhreyfingar og
hugmyndafræðilegar og félagslegar forsendur þeirra.
Kenningar um nýja trúarvitund, alþjóðavæðingu og afhelgun í
tengslum við nýtrúarhreyfingar.
Kenningar um hlut fjölmiðla og netsins í myndun og útbreiðslu
nýtrúarhreyfinga.
Kenningar um rætur nýtrúarhreyfinga í eldri trúarhreyfingum og
trúarbrögðum, svo sem í kristinni trú, austrænum trúar- og heim-
spekihugmyndum, guðleysi og húmanisma.
Ágrip af sögu, kenningum, skipulagi, starfsháttum og félagslegri
stöðu helstu nýtrúarhreyfinganna sem starfað hafa á Íslandi eða
verið áberandi á opinberum vettvangi í gegnum fjölmiðla.
Helstu ágreiningsefni í tengslum við nýtrúarhreyfingar jafnt erlend-
is sem á Íslandi, einkum á opinberum vettvangi í gegnum fjölmiðla.
72 Hér má vísa í áðurnefnd grunnrit eftir Kunin, Religion. The Modern Theories, bls.
73–74 og McGuire, Religion. The Social Context, bls. 3–22, 27–41 og 53–91.
GuðNi ElíssoN