Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2014, Page 168
167
lægu hugarfari“87 um leið og þeir hafi félagslegan bakgrunn sinn í huga,
umhverfi og skoðanir, sem setji „óhjákvæmilega mark sitt á framsetningu
okkar og áherslur“. Gagnrýni má ekki setja fram á kostnað virðingar því
þótt nauðsynlegt sé að geta gert viðkomandi trúarhreyfingum skil, „starfs-
háttum þeirra og trúfræði og þekkja þá gagnrýni sem þær hafa sætt“ verði
um leið að hafa í huga að hér er um „að ræða fólk af holdi og blóði sem
þarf í sínu félagslega samhengi að finna sér stað í tilverunni og því sem því
er dýrmætast“.
„Þverhausarúnk“ og fræðileg umfjöllun: Fjórar tilgátur
Hvers vegna fór Vantrú fram með svo miklum þunga í máli Bjarna Randvers
og hvers vegna var atlagan eins hatrömm og raun ber vitni? Fjórar sam-
verkandi ástæður má setja fram sem skýringu.
Í fyrsta lagi má skýra gagnrýnina á kennsluhætti Bjarna út frá þeirri
pólitísku aðgerðaáætlun sem Óli Gneisti Sóleyjarson hvetur félaga sína
á umræðuþræðinum „SBR“ til að nefna ekki á nafn. Þegar Matthías
Ásgeirsson varpar fram þeirri spurningu „hvernig standi á því að fræði-
maðurinn Bjarni Randver nefni hugtakið Overton glugginn hvergi á nafn
þegar það sé (augljóslega) lykilhugtak í starfssemi [svo] félagsins“ svarar
Óli honum með eftirfarandi orðum: „Ég er alltaf á móti því að við tölum
of mikið um overton gluggann því sú taktík virkar betur þegar fólk veit
ekki af henni.“88 Aðferðafræðin sem hér er kennd við overton-gluggann89
snýst um það hvernig hagsmunasamtök reyna að stýra ráðandi skoðunum
samfélagsins t.d. með því að leggja áherslu á róttæka jaðarhugmyndafræði,
í þeim tilgangi að færa viðmiðsrammann og hafa með því áhrif á hvar
mörk hins ásættanlega liggja. Alla þá sem beita slíkum aðferðum ber að
flokka sem pólitíska aðgerðasinna og er sérlega hættulegt að gera slíkum
hagsmunasamtökum of hátt undir höfði í háskólasamfélaginu, jafnvel þótt
endanleg markmið þeirra kunni að vera góð.
87 Bjarni Randver Sigurvinsson, „Kveðja og velfarnaðarósk“. Bréf sent inn á kennslu-
vef HÍ til allra nemenda námskeiðsins „Nýtrúarhreyfinga“, 6. desember 2009.
88 Matthías Ásgeirsson, „SBR“, kl. 18.11, 14. september 2010; Óli Gneisti
Sóleyjarson, „SBR“, kl. 18.38, 14. september 2010. Börkur Gunnarsson gerir
overton-glugganum ágæt skil í grein sinni „Heilagt stríð Vantrúar“, sjá sérstaklega
bls. 20.
89 Joseph overton (1960–2003) var einn af stjórnendum frjálshyggjuhugveitunnar
Mackinac Center for Public Policy.
FÚSK, FÁFRÆðI, FoRDÓMAR?