Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2014, Síða 170
169
félagsins lýsti samfélaginu á innra spjallinu svo: „Á það hópumst við eins
og dýr að vatnsbóli (eða mý á mykjuskán) og sækjum þangað félagsskap,
stuðning og styrk […] okkur tekst með furðulegum hætti að stilla svo vel
saman alla okkar ólíku strengi að unun er á að horfa. Hér er skemmtilegt
fólk, vel að sér og klárt, og því er útkoman oft aðdáunarverð. Við getum
verið stolt af Vantrú.“94 öll trúarumræða sem mótuð er á forsendum sem
þessum verður óhjákvæmilega persónuleg og snýst öðrum þræði um sjálfs-
mynd þeirra sem þar takast á. Þetta gerir hana vandasama í umfjöllun og
veldur því óneitanlega að þeir sem horfa á málin utan frá forðast að blanda
sér í umræðuna. Vegur þar þungt að öll gagnrýnin greining og jafnvel
einfaldar útskýringar eru túlkaðar sem fjandsamleg atlaga eða óvild í garð
félagsins og félagsmanna. Þessi viðbrögð þjóna að sjálfsögðu einnig þeirri
pólitísku aðgerðaáætlun sem ég ræddi undir fyrsta lið. Með þeim má stýra
umræðunni, skilgreina hvað sé leyfilegt og hvað óleyfilegt að gera í trúargrein-
ingu.
Í síðastnefnda atriðinu má jafnframt greina þriðju ástæðuna fyrir gagn-
rýninni. Greiningarbannið sem birtist hvað skýrast í málum þeim sem
Vantrú rak fyrir siðanefnd HÍ og annars staðar tengist djúpstæðu óþoli
fyrir sérhverri fræðilegri nálgun annarri en þeirri sem forsprökkum félags-
ins er þóknanleg. Óþol þetta sést ekki síst í því að þeir neita að hlusta á
skýringar Bjarna Randvers eða taka þær trúanlegar, og bregðast aðeins við
þeim með útúrsnúningum, uppnefnum – og svo frekari kærum. En jafnvel
þá tilburði má greina á forsendum trúarlífsfélagsfræðinnar sem er einfald-
lega sú aðferð sem við beitum á menningarleg fyrirbæri í samtímanum sé
horft til kenninga Émile Durkheims.95 Franski félagsfræðingurinn Pierre
Bourdieu hefur í anda Durkheims farið slíkar leiðir í orðræðugreiningu
sinni á menningarlegum sannindum, en hann hefur mikinn áhuga á að
greina stöðu óvefengjanlegra gilda í samtíð okkar, veruleika „doxunnar“
sem nær utan um allar mannlegar athafnir sem teljast sjálfgefnar, ómeðvit-
aðar og ,náttúrulegar‘, en doxan mótar markalínur viðurkenndra skoðana
Religion, bls. 133–138 og klassískt verk Bryans R. Wilson um mismunandi form-
gerðir sértrúarhópa, Religious Sects. A Sociological Study, London: Weidenfeld and
Nicolson, 1970.
94 „Aðalfundur Vantrúar“, Vantrú 18. janúar 2011: http://www.vantru.is/2011/ 01/18/
09.30/ [sótt 14. mars 2014].
95 Sjá hér Émile Durkheim, The Elementary Forms of Religious Life, New York: The
Free Press, 1995, bls. 44. Bókin kom fyrst út á frönsku 1912 (Les formes élémentaires
de la vie religieuse). Sjá einnig umfjöllun Seth D. Kunin um Durkheim í Religion.
The Modern Theories, 2003, bls. 16–34.
FÚSK, FÁFRÆðI, FoRDÓMAR?