Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2014, Page 193
192
gengið út frá þeim skilningi að nokkur mismunandi heiti séu nauðsynleg
til að skapa nægilegt „rými“ til að lýsa umræddri þróun.
Ástæða þessara hugleiðinga er að 2017 verða 500 ár liðin síðan Lúther
hóf endurskoðunarstarf sitt. Er þess að vænta að rannsóknir og umræða
um þessa atburði og áhrif þeirra fari vaxandi.2 Af þessum sökum er full
ástæða til að eyða ákveðinni óvissu, ósamræmi og jafnvel spennu sem gætir
í orðnotkun á þessu sviði. Markmiðið með þessum skrifum er þó ekki að
koma á fullkomlega samræmdum orðaforða heldur varpa ljósi á við hvaða
vanda er að etja og hvers er að gæta þegar heiti eru valin á fyrirbæri, stefn-
ur eða strauma í trúmáladeiglu 16. aldar hér á landi og í nálægum löndum.
Þá verður einnig grafist fyrir um hvaða heiti hafa verið notuð fyrr á tímum
um þessa „atburði“. Höfundur þessarar greinar og fleiri guðfræðingar hafa
gengið út frá því að heitið siðbót sé gömul og e.t.v. upprunaleg íslensk
þýðing á alþjóðaorðinu reformation.3 örlítil söguleg greining í líkingu við
þá sem hér fer á eftir sýnir þó að heitið siðbót er ungt í þessari merkingu
og önnur orð voru viðhöfð um fyrirbærið fyrr á öldum.
Mér sem þetta ritar kemur orðræða í samtímanum svo fyrir sjónir, að
spenna hafi lengi ríkt milli tveggja orða sem litið sé á sem samheiti en
jafnframt nokkurs konar „regnhlífarheiti“ yfir trúmálaumbrot 16. aldar
almennt og upphaf evangelísk-lútherskrar kristni sérstaklega. Er þar átt
við heitin siðaskipti og siðbót. Þessarar spennu virðist einkum gæta meðal
guðfræðinga en síður annarra fræðimanna. Jafnframt virðist mér notkun
siðbótar-heitisins fremur vera víkjandi þegar kirkjulegri og/eða guðfræði-
legri orðræðu sleppir. Það kann að vera skaði þar sem heitið á rétt á sér og
er jafnvel nauðsynlegt þótt ekki sé hér litið á það sem heppilegt yfirheiti
eins og komið verður að síðar.
Líta verður svo á að siðbót sé drottnandi heiti í kirkjulegri orðræðu og
að sjálfsmynd íslensku þjóðkirkjunnar feli í sér að hún eigi rætur að rekja
2 Guðfræðistofnun Háskóla Íslands stofnaði t.d. 2011 til þverfræðilegs samstarfs
um rannsóknir á þessu sviði og tengjast nú hátt í 40 fræðimenn á ýmsum sviðum
verkefninu. Sjá „Um verkefnið“, 2017.hi.is, án dags., sótt 22. febrúar 2014 af
http://2017.hi.is./?page id=23. Þessi grein á upphaf að rekja til fyrirlestrar sem
fluttur var á málþingi á vegum verkefnisins.
3 Gunnar Kristjánsson, „Inngangsorð: Marteinn Lúther og Íslendingar“, Lúther og
íslenskt þjóðlíf. Erindi flutt á ráðstefnu um Martein Lúther, er haldin var 4. nóvember
1983 í tilefni þess að 500 ár voru liðin frá fæðingu hans, ritstj. Gunnar Kristjánsson og
Hreinn Hákonarson, Reykjavík: Hið íslenska Lúthersfélag, 1989, bls. 5–12, hér bls.
11. Hjalti Hugason, „Hverju breytti siðbreytingin? Tilraun til endurmats í tilefni
af páfakomu“, Kirkjuritið 1–2/1989, bls. 71–99, hér bls. 73–74
hJalti huGasoN