Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2014, Page 208
207
Þannig stendur í Vatnsfjarðar-annál í tengslum við Bjarnanessreið (1547)
að „sundurþykkja“ hafi verið milli Jóns Arasonar og Marteins Einarssonar
„um trúarbrögðin“.58 Sömu tengsl koma fram í Skarðsár-annál þegar sagt er
(við árið 1542):
Almúginn á Íslandi skrifaði kong Christian þriðja til, að þeir hefði
meðtekið eina nýja ordinantíu og skikkan þeim senda, en þeir
þeinktu það kæmi honum ekki við, heldur rómverskri kirkju að gera
skikkan og orðu um kirkjuceremoníur. Um þann tíma óx ókyrleikur
og ofstopi á Islandi. Vildi fólkið margt hvert ekki meðtaka umbreyt-
ing trúarbragðanna, sem upphófst af biskup Gissuri hér á landi.59
Hér kemur fram að breytingarnar á kirkjusiðunum sem Kristján III
fyrirskipaði í kirkjuskipan sinni (1536/1539) hafi á ritunartíma annálsins
um miðbik 17. aldar ekki aðeins verið taldar felast í breyttu kirkjulegu
atferli heldur hafi þær verið samfara umbreytingu á trúarbrögðunum sjálf-
um sem vakti spurningar um umboð konungs í hugum þeirra sem ekki
fylgdu honum að málum. Við svipaðan tón kveður í Biskupasögum Jóns
Halldórssonar þegar sagt er að ögmundur Pálsson „hindraði endurbót
trúarbragðanna“,60 og að Sigurður Jónsson og ferðafélagar hans (1542)
hafi svarið sig undir „[...] þau lúthersku trúarbrögð [...]“.61 Verður því
vissulega að slá varnagla við þeirri túlkun sem haldið var fram hér á undan
þess efnis að upprunaleg merking orðsins siðaskipti vísaði fyrst og fremst
til breytinga á helgi- eða kirkjusiðum þótt hér sé ekki litið svo á að grund-
vellinum sé kippt undan henni. Sömu tengsl milli kirkjusiðanna og trúar-
innar sjálfrar koma raunar fram í formálum Jóns Halldórssonar í Hítardal
að Biskupasögum sínum. Þar lýsti hann siðaskiptunum á trúarlegum nótum
sem verki Guðs sjálfs og líkir þeim við sólhvörf á vetri,62 þannig „[...] að
upprann aptur í þessu stipti það skæra og sáluhjálplega evangelii ljós og
sanna guðs þekking og þjónusta mitt í þeirri yfirdrottnandi páfadómsins
villu og vantrúar-myrkrum [...].“63
58 Jón Arason, „Vatnsfjarðarannáll“, bls. 42.
59 Björn Jónsson, „Skarðsárannáll“, bls. 102.
60 Jón Halldórsson, Biskupasögur I, bls. 2.
61 Jón Halldórsson, Biskupasögur II, bls. 5.
62 Jón Halldórsson, Biskupasögur I, bls. 1. Jón Halldórsson, Biskupasögur II, bls. 1–2,
sjá og 5.
63 Jón Halldórsson, Biskupasögur I, bls. 1.
HEITI SEM SKAPA RÝMI