Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2014, Side 212
211
dæmin um orðmyndina siðabót.83 Elsta dæmið sem hér hefur tekist að
finna kemur vissulega ekki fyrir í ritmálssafninu. Það er frá 1878 en það
ár kom út ritið Um siðbótina á Íslandi eftir Þorkel Bjarnason (1839–1902) á
Reynivöllum en það var frumsamið sagnfræðilegt verk. Ekki gerði Þorkell
grein fyrir orðnotkun sinni en sá þó ástæðu til að skilgreina orðið „siðbót-
ar-menn“ sem hann kvaðst nota í sömu merkingu og „(Lúterstrúar-menn
og) mótmælendr.“84 Gæti það bent til að hann hafi talið að orðnotkunin
hafi ekki verið orðin föst í sessi. Ritdómari Þjóðólfs (Matthías Jochumsson
(1835–1920)) taldi bókina bera fremur veraldlegan „blæ“ en kirkjulegan
sem og að höfundurinn sýni „óhlutdrægni“ og „festu höfundarins gagn-
vart sannleikanum“.85 Hann gaf ekki í skyn að orðnotkunin vekti athygli
hans eða hann teldi heitið siðbót gildishlaðið. Er því ástæða til að ætla að
það hafi þá þegar verið búið að öðlast einhverja hefð eða þó öllu fremur að
orðið hafi notið þeirrar stöðu sem heitið siðabót hafði áunnið sér. Þess skal
þó getið að Þorkell notaði einnig heitið „trúarbreyting“ í riti sínu.86
Helgi Hálfdánarson (1826–1894) prestaskólakennari gaf svo 1883 út
minningarkver um Lúther í tilefni af fjögurra alda fæðingarafmæli hans.
Þar fjallaði hann um „siðbót Lúters“ sem hann sá ástæðu til að skáletra
í inngangi.87 Í riti sínu fjallaði Helgi þó aðeins um ævi og siðbótarstarf
Lúhers en ekki útbreiðsluna og síðari áhrif eins og t.d. siðaskiptin hér á
landi.
Hér skal á það bent að í sálmabókum kirkjunnar á 19. öld var að finna
sérstakan flokk sálma sem tengdust siðaskiptunum og kölluðust reform-
ations-sálmar í Messusöngs- og sálmabók Magnúsar Stephensen og Geirs
Vídalín (1761–1823) biskups frá 1801 og sálmabók Péturs Péturssonar
83 „siðbót“, islex.hi.is, án dags., sótt 19. febrúar af http://lexis.hi.is/cgi-bin/ritmal/
leitord.cgi?adg=daemi&n=408287&s=501203&l=si%F0b%F3t.
84 Þorkell Bjarnason, Um siðbótina á Íslandi, Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag,
1878, bls. 35 nmgr. 3. Sjá Jón Thor Haraldsson, „Lúther í íslenskri sagnfræði“, bls.
15.
85 „Um siðbótina á Íslandi“, Þjóðólfur 30. ár, 24. bl. 17. ágúst 1878, bls. 98–99.
86 Þorkell Bjarnason, Um siðbótina á Íslandi, bls. 119, 131.
87 Í innganginum nefnir Helgi Lúther „mikinn guðsmann, trúarhetju, sannleikshetju
og frelsishetju“, og segir að allir sem heiðri minningu hans á þessum tímamótum
„[...] kannast við það, að síðan postular Jesú Krists voru uppi, hafi enginn maður
unnið jafnmikið og hann til eflingar sönnum kristindómi, sannri menntun og sönnu
mannfrelsi; [...]“. Líkir Helgi Lúther við Móse, Samúel og Elías í Gamla testament-
inu. Helgi Hálfdánarson, Lúters minning fjórum öldum eptir fæðing hans, Reykjavík:
Prentsmiðja Sigm. Guðmundssonar, 1883, bls. 3–4.
HEITI SEM SKAPA RÝMI