Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2014, Side 219
218
fékkst eða 1919. Með orðinu siðbreyting kann Páll Eggert fyrst og fremst
að vera að leita fjölbreytni í orðavali en líka virðist ljóst að notkun þess er
liður í leit hans að hlutlægni. Ætla má að hún hafi verið aðalástæða þess
að hann sniðgekk orðið sið(a)bót sem hafði öðlast festu á þessum tíma.115
Þetta dæmi er ekki að finna í ritmálssafni orðabókar Háskólans og þau þrjú
dæmi sem þar eru gefin um siðbreytingu eru mun yngri eða frá um 1980
og síðar.116 Þess skal getið að í ritmálssafninu er að finna enn eldra dæmi
um heiti af þessum toga, það er að segja siðabreyting. Það er úr vinarbréfi
Einars Ásmundssonar (1828–1893) í Nesi í Höfðahverfi til Magnúsar „fra-
ters“ Eiríkssonar (1806–1881) guðfræðings í Kaupmannahöfn frá 1870.
Þar ritaði Einar:
Á katólska tímabilinu fór landinu fyrst lengi fram og svo lengi aftur,
en það kom af öðrum orsökum en katólskunni. Eftir siðabreytinguna
(eg kalla það hvorki siðabót né siðaspilling) fór landinu fyrst lengi
aftur og síðan fram, en prótestantískunni er þetta hvorki að kenna
né þakka.117
Þarna virðist fríhyggjumaðurinn Einar tvímælalaust leita hlutlægni sem
líklega skilar sér í nýyrðasmíð sem tekið hefur mið af ríkjandi heiti á þess-
um tíma, þ.e. siðabót.118 Sigurður Nordal notaði heitið siðabreyting einn-
ig sem samheiti við siðaskipti í hinni þekktu ritgerð sinni um samhengið í
íslenskum bókmenntum frá 1924.119
115 Sjá Hjalti Hugason, „Hverju breytti siðbreytingin?“, bls. 76.
116 „siðbreyting“, islex.hi.is, án dags., sótt 21. febrúar 2014 af http://lexis.hi.is/cgi-bin/
ritmal/leitord.cgi?adg=daemi&n=408277&s=501248&l=si%F0breyting.
117 Arnór Sigurjónsson, Einars saga Ásmundssonar I. b., Bóndinn í Nesi, Reykjavík:
Bókaútgáfa Menningarsjóðs, 1957, bls. 303.
118 Líklegt er þó að Einar í Nesi hafi þekkt orðið í eldri mynd, þ.e. siðabreitni/-breytni,
en það kemur fyrir í kaflafyrirsögn („Tregleiki á Sidabreytni“) og sem uppflettiorð
(„siðabreitni“) í „registr[i] tilburða og hluta“, þ.e. atriðisorðaskrá, með Árbókum
Espólíns. Ekki verður þess hins vegar vart í texta ritsins. Þar er rætt um „sidaskipt-
in“ og „alla sidbót“ (elsta dæmið sem hér er getið). Jón Espólín, Árbækur IV, bls.
100. Jón Espólín, Registr yfir öll manna-nöfn sem finnast í Árbókum Íslands ásamt ödru
yfir hina markverdustu tilburdi og hluti í sömu bókum, Kaupmannahöfn: Hið íslenska
bókmenntafélag, 1833, bls. 123. Þá talar Espólín um ýmsar samþykktir prestastefnu
„er til sidbóta horfdu“ í tíð odds Einarssonar. (Jón Espólín, Íslands Árbækur í sögu-
formi V. deild, Kaupmannahöfn: Hið íslenska bókmenntafélag, 1826, bls. 66) Þar
er þó ekki átt við hvörfin milli miðaldakirkjunnar og lútherskrar kristni þótt líta
megi svo á að um konsolideringu (sjá hér á undan) siðaskiptanna hafi verið að ræða
samkvæmt nútímaskilningi.
119 Sigurður Nordal, „Samhengið í íslenskum bókmenntum“, bls. xx.
hJalti huGasoN