Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2014, Page 234
233
var fullkomin og hnökralaus hamingja eftir sem áður einungis á færi guð-
dómsins. Í augum flestra Grikkja hlutu mannlegar verur að vera vesælar í
samanburði við guðdóminn, þótt vesældin væri misjafnlega mikil eftir því
hvort guðdómurinn væri þeim vilhollur og ágæti þeirra sjálfra – það sem
við köllum venjulegast dyggð þeirra – dygði þeim til að nálgast á einhvern
hátt guðdóminn. Slík manneskja nefndist oftast olbíos (sem við getum þýtt
gæfusöm), en allt frá samræðum Platons kallaðist hún oftast hjá heimspek-
ingunum evdaímon (sem hefur verið þýtt farsæl).2 Í augum sumra Grikkja
gátu manneskjurnar gert sér smávon um að öðlast hamingju eftir holdleg-
an dauða í guðdómlegu framtíðarástandi. Þetta gátu manneskjur gert með
því að hreinsa sálir sínar og gera þær eins ágætar og dyggðugar og kostur
var. En eins og fyrr segir töldu siðfræðingarnir – frá Sókratesi og fram-
vegis – að maðurinn gæti öðlast farsæld í þessu lífi af eigin rammleik að svo
miklu leyti sem honum auðnaðist að verða sem líkastur guði, sem mestur
hugur og sem minnst hold.
3. Þrjár hliðar guðdómlegrar hamingju
Ein hlið hinnar fullkomnu hamingju guðdómsins er því algert ágæti (eða
dyggð – aretē). Guð er fullkomlega ágætur. Í gegnum gríska sögu breytast
hugmyndir um guðdóminn. Hann er skilinn mannlægum skilningi
Hóm ers kviða, miklu síðar heimspekilegum skilningi Platons og Aristó-
telesar. Að sama skapi eru ólíkar hugmyndir um það ágæti sem einkennir
guðdóminn. og með breytingum á hugmyndum Grikkja um ágæti, sem
stöðugt vísa meira til sálargæða, til innri gæða mannsins andstætt hinum
ytri, þannig breytast einnig hugmyndir um hamingjuna. En hvort sem
Grikkinn var skáld eða heimspekingur er að finna tvær aðrar hliðar á guð-
dómnum og hamingju hans, fyrir utan téð ágæti. Áréttum snöggvast mikil-
vægi þess: Ágætið gerir guð ágætastan allra, að mætti, að visku, að réttlæti.
Ágæti veitir honum jafnframt algeran og fullkominn heiður og virðingu
(tímē), sem einnig er fyrirmynd mannsins.3 Í öðru lagi er þetta ágæti guð-
2 Ég nota því orðið hamingja sem yfirheiti bæði gæfu og farsældar. Því má bæta við að
orðið evdaímonía kemur fyrst fyrir hjá Hesíodosi, en vísar venjulegast til efnalegrar
velsældar á 5. öld f.Kr.; sjá Kenneth Dover, Greek Popular Morality in the Time of
Plato and Aristotle, Indianapolis: Hackett, 1994 [1974], bls. 174. Olbíos er orðið sem
Herodótos notar í samræðum Sólons og Krösosar.
3 Um heiður hjá Forngrikkjum og samanburð við miðaldaheiður Íslendinga, sjá
Svavar Hrafn Svavarsson, „Honour and Shame: Comparing Medieval Iceland and
Ancient Greece“, Gripla 2009, bls. 241–56.
SIFJAFRÆðI HAMINGJUNNAR