Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2014, Síða 237
236
sannarlega er ekkert, held ég, vesælla en maðurinn af öllum þeim verum
sem andann draga og hreyfast á jörðunni“ (Ilíonskviða 17.446–47).6 Þannig
lítur Seifur sjálfur á málið. Athugum þessa sögu nánar.
Þegar skáld Hómerskviða fást við mannlega breytni gera þau ráð
fyrir því að manneskjur eltist jafnan við ágæti, helsta markmið athafna,
sem tryggi jafnframt heiður og virðingu (tímē). Það er ekki langsótt að
láta heiður vera hugmynd Hómers um hamingju.7 Nokkru síðar fjallaði
Aristóteles um kost og löst þess að farsældin fælist í heiðri, enda fullkunn-
ugt um mikilvægi heiðurs í Hómerskviðum; hann lét heiður vera markmið
stjórnmálalífsins (Siðfræði Níkomakkosar 1.5.1095b22–23). Ef manneskja
lifði við heiður, hjá Hómer, gaf slíkt líf til kynna að manneskjan væri ágæt.
Þetta bendir Aristóteles á og segir að þá sé ágætið líklega betri kostur en
heiður (1095b26–31). og hjá Hómer er ágætið inntak hins góða lífs.
Guðirnir áttu einnig heiður, reyndar hæstan heiður, sem engin mann-
vera gat nálgast, því þeirra var mesta ágætið. Heyrið Fönix ávarpa Akkilles
(Ilíonskviða 9.496–98): „Tem nú, Akkilles, hið mikla hjarta þitt! Ekki sæmir
þér að bera grimmt hjarta í brjósti. Jafnvel sjálfir guðirnir eru auðbeðn-
ir, og er þó atgjörvi (aretē) þeirra og tign (tímē) og kraftur meir, en þinn
…“ Munur á guðum og mönnum er mikill. Allt böl er fjarri guðum.
Dauðlegum mönnum bölið víst.
Ágætið – markmið þess geranda sem leitast við að skara fram úr öðrum
– birtist á margvíslegan hátt í Hómerskviðum.8 Ágæti manns á einhverju
sviði gefur til kynna að maðurinn sé afar góður og fær á þessu sviði – aretē
merkir orðrétt „bestleiki“ – og ber af öðrum. Hann hefur keppt að því og
tekist að vera betri en aðrir. Yfirburðum af þessu tagi má líkja við sigur í
keppni.9 Enn fremur eru engin skýr skil á milli eiginleika eða færni sem
6 Þýðingar úr Hómerskviðum eru eftir Sveinbjörn Egilsson.
7 Moses Finley, The World of Odysseus, Harmondsworth: Penguin, 1979 [1954], og
Alasdair MacIntyre, After Virtue: A Study in Moral Theory, London: Duckworth,
2007 [1981], ganga svo langt að leggja að jöfnu siðferði og samfélagsbyggingu innan
hómersks samfélags með fulltingi hugtakanna ágætis og heiðurs. MacIntyre segir
(bls. 123): „There is only one set of social bonds. Morality as something distinct
does not yet exist. Evaluative questions are questions of social fact.“
8 Sjá t.d. Ilíonskviðu 15.642, um Perefetes, sem er ágætur að ólíku leyti, hvort heldur
fyrir hraða fætur, bardagafimi eða hugsun. Sjá einnig A.W.H. Adkins, Merit and
Responsibility: A Study in Greek Values, oxford: Clarendon Press, 1960, bls. 31–39 og
Douglas L. Cairns, Aidôs: The Psychology and Ethics of Honour and Shame in Ancient
Greek Literature, oxford: Clarendon Press, 1993, bls. 100–102.
9 Adkins, Merit and Responsibility, leggur áherslu á keppnina. Locus classicus er Ilíons-
kviða 11.783–84: „Gamli Peleifur bað þess Akkilles, son sinn, að hann væri jafnan
sVaVaR hRafN sVaVaRssoN