Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2014, Page 249
248
/ þannig vjer í líf úr lífi flytjum, / launanna vjer beggjamegin vitj-
um.
Góðra manna röðull rennur eigi, / rógs- og tárlaust lífdaga þeir
neyta, / hvorki þeir á landi nje á legi / leita fæðunnar í andlits sveita;
/ guða standa góðum opnir salir, / geigvænlegar eru vondra kvalir.
Hverjum sem að lífin lifað hefur / lastvart þrenn og eiðfast hvoru-
megin, / honum Seifur ljúfur leyfi gefur / loks að fara Kronosborgar
veginn / til Eyja Sælla; sjáargolan leikur / svöl þar ódáins við mærar
eikur.
7. Heimspekingar um handanheim
Drápur Pindars gera ráð fyrir möguleikanum á frelsun í annarri vist. Þetta
eru áhrif frá heimspekingum (pýþagóringum og Empedóklesi) og orfeifsk-
um launhelgum. Þar er útskýrð guðdómleg hamingja og með hvaða hætti
maðurinn getur nálgast þennan guðdóm með hreinu og hreinsandi líferni,
sem virðist vera algerlega undir manninum sjálfum komið. Skilyrði ham-
ingjunnar hafa verið færð inn í manninn, en hamingjan er samt handan
mannsins í þessu lífi, en í því næsta er manninum bættur þessi skortur, því
þar verður hann ekki aðeins goðumlíkur heldur jafnvel sjálfur einhvers
konar guð; takmarkið er að vera sjálfur guðdómlegur í annarri vist. Gerum
skýrari grein fyrir þessari færslu.
Grikkir hugsuðu guði sína í mannslíki. Það var Xenofanes sem eyði-
lagði þessa hugmynd, að hluta; gagnrýni hans á hefðbundna eiginleika hinna
ólympísku guða gerði út af við hómerska manngervingu guðanna sem heim-
spekilegan möguleika. Eigi að síður er guð Xenofanesar greinilega afsprengi
hefðbundinna hugmynda, þótt ekki sé hann mannlegur að sniðinu til. Í
fyrsta lagi er guð sjálfum sér nægur, og verður hvorki til né ferst (B14, 23,
26). Í öðru lagi sér hann allt, heyrir allt, veit allt, og stjórnar öllu með huga
sínum (B23–25). og viskan er ekki eina ágætið; viskan stjórnar á réttlátan
hátt (B11, 12, B1.13–16). Í þriðja lagi gefur sjálfstæði guðs til kynna tóm
hans og frelsi frá allri truflun (B25–26). Walter Burkert segir: „Þannig hefur
í raun varðveist það sem hafði verið sagt um guðina frá fornu fari og gert
algilt, að þeir væru eilífir, sterkari, sælir; aðeins hinn andlegi þáttur hefur
verið kynntur til sögunnar í stað bernskrar manngervingar.”30
30 Sjá Walter Burkert, Greek Religion, Cambridge: Harvard University Press, 1985,
bls. 318–19, upphaflega Griechische Religion der arkaischen und klassischen Epoche
sVaVaR hRafN sVaVaRssoN