Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2014, Page 272
271
sjálfar og sjálfra sín vegna“.10 Þetta stenst ómögulega í bók sem fjallar um
réttarsögu tilfinninganna, enda er varla hægt að halda því fram að völd og
auður hafi ekki stjórnað því hvaða rétt fólk hafði til að njóta tilfinninga
sinna á tímabilinu sem um ræðir. Það má sjá þess merki víða í bókinni að
Gunnar túlkar heimildir meðvitað án þess að velta fyrir sér hvernig vald og
auður hafði áhrif á sögulega atburði og skráningu þeirra. Ég get ekki verið
sammála þessari aðferð, þar sem vinna sagnfræðings snýst fyrst og fremst
um að vera gagnrýninn á heimildir. Rannsókn sem ætlar sér að samhæfa
réttarsögu og tilfinningasögu getur ekki hliðrað sér undan því að spyrja
áleitinna spurninga um samfélagið sem er til athugunar.
Eins og algengt er þá setur höfundur Ástarsögu Íslendinga að fornu sér
það göfuga markmið að skrifa jafnt fyrir fræðimenn, háskólanema og ósér-
frótt áhugafólk.11 Það er hins vegar sjaldgæft að slíkt gangi í raun og veru
upp, enda eru áhugasvið og lestrarhvati þessara þriggja hópa oft býsna
ólíkir. Bókinni fylgir nafna- og atriðisorðaskrá og útdráttur á ensku eins
og fræðibók sæmir, og vandlega er vísað til heimilda. Þær eru þó allar
geymdar aftast, þar sem þær trufla ekki ósérfrótt áhugafólk. Aðferð höf-
undar við að útskýra notkun sína á ritum annarra fræðimanna í megintexta
bókarinnar ætti einnig að vera aðgengileg fyrir ósérfróða. Ógnarlangar
orðréttar tilvitnanir í Íslendingasögurnar virðast meira að segja gera ráð
fyrir að ekki kannist allir lesendur við verk á borð við Njálu, eða hafi í
það minnsta tekist að gleyma því að Gunnar og Hallgerður voru hjón.
Sérstaklega set ég spurningarmerki við gagnsemi álíka ítarlegra tilvitnana
í lög frá miðöldum, en þær brjóta upp flæði bókarinnar á hátt sem getur
ómögulega verið hvetjandi fyrir hinn almenna lesenda.12
Það sem hins vegar kemur í veg fyrir að Ástarsaga Íslendinga að fornu
sé heppileg fyrir áhugasaman almenning jafnt sem fræðimenn er orðalag
höfundar og rökstuðningur. Miklar ályktanir eru dregnar af litlu, og kenn-
ingum annarra fræðimanna er stundum hafnað handahófskennt. Ýktasta
dæmið um þetta er að finna í umræðu höfundar um mótunarhyggju og
eðlishyggju, sem liggur til grundvallar allri bókinni. Hugsunarhætti eðlis-
hyggju lýsir hann sem svo „að mannlegt eðli sé jafnan sjálfu sér líkt“
en samkvæmt mótunarhyggju „ákvarðast það af félagslegum aðstæðum
S. Arnórsdóttur, Bjørn Bandlien og Henric Bagerius.
10 Gunnar Karlsson, Ástarsaga Íslendinga, bls. 42.
11 Gunnar Karlsson, Ástarsaga Íslendinga bls. 13.
12 Sjá t.d. Gunnar Karlsson, Ástarsaga Íslendinga, bls. 77–78, 85–86, 120, 186–187,
229.
SIGUR EðLISHYGGJUNNAR?