Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2014, Page 274
273
Guðmundar sögu dýra gefur okkur um Guðrúnu eru einfaldlega ekki nægar
til að við getum leyft okkur að fullyrða á þennan hátt um hennar innra til-
finningalíf og geðheilsu.20 En það er einmitt á slíkum ályktunum sem sá
hluti bókarinnar sem snýr að tilfinningasögu hvílir. Því vil ég gera nokkrar
athugasemdir við heimildanotkun í Ástarsögu Íslendinga að fornu.
Þær frumheimildir sem notast er við í bókinni eru íslensk lagasöfn frá
miðöldum, skjöl, dróttkvæði og Eddukvæði, Íslendingasögur og svo sam-
tíðarsögurnar, Sturlunga og Biskupasögur.21 Hins vegar sleppir höfundur
sögum sem gerast utan Íslands, þó þær séu þýddar eða jafnvel samdar á
norrænu. Þetta á við um heilagra manna sögur, konungasögur, riddarasög-
ur og fornaldarsögur. Höfundur rekur í nokkru máli ástæður sínar fyrir því
að sleppa þessum heimildum, og virðist helsta ástæða þess vera sú að þær
eiga sér sögusvið erlendis, og séu því ekki jafn góðar heimildir um tímabil-
ið frá tólftu öld til þeirrar fjórtándu og Íslendingasögur og Sturlunga. Þær
séu einfaldlega ekki jafn raunsæjar heimildir.22
Íslendingasögurnar og Sturlunga eru að sjálfsögðu betri heimildir en
riddarasögur og heilagra manna sögur um ýmiss konar efni. Það á t.d.
við um stjórnskipun, herútbúnað, búskaparhætti og veisluhöld, svo eitt-
hvað sé nefnt. Hins vegar gengur höfundur ef til vill fulllangt í trú sinni
á heimildagildi þeirra um innra tilfinningalíf sögulegs fólks. Í því tilliti
þá er Guðrún Ósvífursdóttir í Laxdælu ekkert nema skáldsagnapersóna,
og ástarlíf hennar er hvorki raunverulegra né óraunverulegra en ástarlíf
Valentínu í Samsonar sögu fagra. Persóna hinnar fyrri kann að vera flóknari
og falla betur að smekk nútímalesenda, en Guðrún Ósvífursdóttir verður
ekki að raunverulegri manneskju fyrir þá sök að við eigum auðvelt með
að lifa okkur inn í sögu hennar. Tilfinningalíf hennar getur í besta falli
lýst viðhorfi höfundar Laxdælu, og gefið okkur innsýn í hvernig viðtak-
endur sögunnar upplifðu ástina, en það sama má segja um persónur í ridd-
arasögum, fornaldarsögum, konungasögum og heilagra manna sögum. Ef
höfundar og lesendur voru íslenskir, þá eiga þessar heimildir erindi við
íslenska tilfinningasögu.
20 Guðrún Þórðardóttir er ein af mörgum aukapersónum Sturlungu. Henni bregður
fyrir þegar hjúskaparmál hennar valda deilum sem fléttast inn í stærri og flókn-
ari atburðarás. Sturlunga saga I, ritstj. Jón Jóhannesson, Magnús Finnbogason og
Kristján Eldjárn, Reykjavík: Sturlunguútgáfan, 1946, bls. 168–171, 196–199.
21 Gunnar Karlsson, Ástarsaga Íslendinga, bls. 49.
22 Gunnar Karlsson, Ástarsaga Íslendinga, bls. 49–51.
SIGUR EðLISHYGGJUNNAR?