Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2014, Page 276
275
að þessi örsaga er skáldskapur, en hann álítur hana engu að síður marktæka
heimild sem sýni inn í huga stúlkna sem búast við að verða giftar, án þess
að fá miklu ráðið sjálfar um útkomuna.27
Það er almennt séð ekki véfengt að allar sögurnar í Sturlungu séu rit-
aðar af karlmönnum, og því er erfitt að sjá hvernig nokkur frásögn þar gefi
innsýn í huga ungra stúlkna í giftingarhugleiðingum. Sjálf gæti ég tekið
upp á því að skálda dagbókarfærslu Bríetar Bjarnhéðinsdóttur daginn sem
íslenskar konur fengu kosningarétt, þar sem ég lýsti gleði hennar og fögn-
uði. Slík æfing ímyndunaraflsins yrði eflaust merkileg fyrir sagnfræðinga
árið 2800, en myndi því miður ekki gefa neina innsýn inn í hug Bríetar eða
annarra kvenréttindakvenna frá hennar tíma.
önnur rök höfundar fyrir því að hafna notagildi annarra heimilda fyrir
rannsóknina eru þau að þær falli ekki innan tímaramma rannsóknarinnar,
auk þess sem aðrir fræðimenn hafi fjallað um ástina í þessum heimildum,
og er lesendum góðfúslega bent á þá höfunda.28 Þetta kallar óneitanlega
á þá spurningu hvort aðrir fræðimenn hafi ekki einnig fjallað um sam-
skipti kynjanna í Íslendingasögum og samtíðarsögum. Þetta eru nú einu
sinni þær heimildir sem hafa legið til grundvallar íslenskri miðaldasögu í
meira en öld, og liggur við að hvert einasta atvik þeirra hafi verið greint
ofan í kjölinn. Það þýðir ekki að fræðimenn geti ekki komist að nýjum og
áhugaverðum niðurstöðum með því að rannsaka þær, en til þess þarf bæði
áhugaverðar og frjóar rannsóknarspurningar. Því miður skortir Ástarsögu
Íslendinga að fornu slíkan útgangspunkt.
Í kaflanum „Um efnafræði ástarinnar“, lýsir höfundur muninum á eðl-
ishyggju og mótunarhyggju í rannsóknum á ást og kynferði, og tekur sem
fyrr segir afgerandi afstöðu með eðlishyggju, það er að segja þeirri skoð-
un að ástin sé alltaf eins. Hún stjórnist af hormónaboðum í heilanum,
dópamíni, vasópressíni og oxytósíni. Það fyrsta valdi rómantískri ástríðu,
en þau seinni langvarandi ástúð. Velheppnuðum ástarsamböndum megi
svo lýsa með þríhyrningi milli ástríðu, innileika og skuldbindingar, þar
sem allir armar þríhyrningsins hafi jafn mikið vægi.29 Væntanlega ber að
skilja það sem svo að allt mannfólk, hvar sem er og hvenær sem er, sé fært
um að þekkja þessa frummynd hamingjusamrar ástar. Sá hluti bókarinnar
sem ekki snýr að réttarsögu fer svo í það að plægja Íslendingasögurnar og
27 Gunnar Karlsson, Ástarsaga Íslendinga, bls. 90.
28 Gunnar Karlsson, Ástarsaga Íslendinga, bls. 49–50, 54. Hér nefnir Gunnar sér-
staklega þá Daniel Sävborg, Bjørn Bandlien og Henric Bagerius.
29 Gunnar Karlsson, Ástarsaga Íslendinga, bls. 24–28.
SIGUR EðLISHYGGJUNNAR?