Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2014, Page 282
281
stuðningur er oft handahófskenndur og leiðir alltaf til þeirrar fyrirfram-
gefnu niðurstöðu að tilfinningalíf Íslendinga að fornu hafi í meginatriðum
verið eins og hjá Íslendingum dagsins í dag. En meginefni bókarinnar er
þrátt fyrir allt réttarsaga ástarinnar. Þar er í sjálfu sér fátt að gagnrýna,
Gunnar Karlsson er að fjalla um efni og heimildir sem hann þekkir eins og
lófann á sér. Að vísu hefur áður verið fjallað um lagaákvæði og samfélags-
leg viðhorf til kynlífs og hjónabanda.48 Helst var það kaflinn um refsingar
og refsileysi við kynlífi með sama kyni sem færði mér nýjar upplýsingar.
Engu að síður er akkur í því fyrir alla markhópa höfundar, ekki síst áhuga-
saman almenning, að fá í hendurnar gott og aðgengilega skrifað yfirlitsrit
um efni sem ætti að vekja áhuga flestra.
En þá komum við aftur að þeirri þversögn sem felst í ætlun höfundar
að skrifa yfirlitsrit þegar frumrannsóknir eru skammt á veg komnar. oftast
er nú byrjað á frumrannsóknunum, því annars er hætt við að yfirlitsritið
sé byggt á brauðfótum og verði samstundis úrelt um leið og frumrann-
sóknirnar eiga sér stað. Við lestur bókarinnar er hins vegar ekki annað
hægt en að draga þá fullyrðingu í efa að það skorti frumrannsóknir á ást-
arlífi Íslendinga frá landnámi að lokum þjóðveldis. Hjónabönd Guðrúnar
Ósvífursdóttur, girndarráð Hallgerðar og Gunnars, frilluhald 13. aldar,
ergi, allt eru þetta þekkt umfjöllunarefni sem hafa verið rannsökuð all-
ítarlega, eins og sjá má í heimildaskrá bókarinnar. Því er þetta yfirlitsrit
hreint ekki jafn fjarstæðukennt og fyrst mætti ætla. En eftir stendur spurn-
ingin hvort það hafi verið þörf á slíku yfirlitsriti. Árið 1992 kom nefni-
lega út bókin Fjarri hlýju hjónasængur: Öðruvísi Íslandssaga eftir Ingu Huld
Hákonardóttur. Í raun á bók Gunnars merkilega margt sameiginlegt með
bók Ingu Huldar sem er yfirlitsrit um réttarsögu ástarinnar á Íslandi, gefin
út fyrir almenning hjá Máli og menningu en með fræðilegum tilvísunum
aftast í bókinni.49
Fjarri hlýju hjónasængur fjallar um lengra tímabil en bók Gunnars og
bitastæðasti kaflinn fjallar um tímann eftir siðaskipti á 16. öld. Ef til vill er
það ástæða þess að Gunnar taldi þörf á öðru yfirlitsriti sem fjallaði ítarlega
48 T.d. má benda á verk Agnesar S. Arnórsdóttur: Konur og vígamenn. Staða kynjanna
á Íslandi á 12. og 13. öld, Reykjavík: Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands, 1995. Þar er
rætt um erfðarétt óskilgetinna barna, löggjöf um hjónabönd og skilnaði og stöðu
ekkja og hjákvenna. Einnig er fjallað um hjónaband, samþykki kvenna og frillulifn-
að í lögum og bókmenntum í bók Auðar Magnúsardóttur: Frillor och Fruar. Politik
och samlevnad på Island 1120–1400. Gautaborg: Göteborgs Universitet, 2001.
49 Inga Huld Hákonardóttir, Fjarri hlýju hjónasængur: Öðruvísi Íslandssaga, Reykjavík,
Mál og menning, 1992.
SIGUR EðLISHYGGJUNNAR?