Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2014, Síða 285
284
ókomnar aldir á listsköpun og leikhúsi, og bókmenntagreinum, en ekki viðhorf eldri heim-
spekingsins.3
Greinafræðin hefur haldið miðlægu hlutverki sínu og þótt ræturnar séu í Aþenu til forna
reynist hún mikilvægt – en jafnframt óvænt – innslag í listfræðilega orðræðu samtímans.
Þetta verður mjög áþreifanlegt á tuttugustu öldinni þegar hver miðillinn á fætur öðrum
er kynntur til sögunnar, og sá nýjasti og tæknilegasti ávallt leystur af hólmi af enn nýrri og
tæknilegri tækjabúnaði til menningarmiðlunar. Í umfjöllun um þessa miðla er oft sem verið
sé að uppgötva greinafræðin aftur og aftur og alltaf í fyrsta sinn. Að flokka beri ólíkar birt-
ingarmyndir bókmennta, kvikmynda, leikrita og annarra menningarafurða í afmarkaðar og
skýrt skilgreindar tegundir eða „greinar“ (e. genre), að það sé einskonar skylda, má túlka sem
viðbragð við þekkingarfræðilegum kröfum nútímans. Zygmunt Bauman hefur til dæmis fært
rök fyrir því að eitt mikilvægasta einkenni nútímans sé hvernig hann leggur sig allan fram við
að útbúa hið endanlega skipulag þar sem einskis er vant og allt er á sínum stað, heimsmynd
þar sem fullkomin regla er á hlutunum og allt má fella í kerfi.4 Að mati Baumans reynist
ósamræmanleiki táknkerfa og veruleikans hins vegar þrándur í götu þegar að þessu verkefni
kemur, og ávallt verður eitthvað útundan í skipulaginu. Það fellur milli stafs og hurðar og
hindrar nútímann frá því að verða endanlega nútímalegur. En þótt manninum sé sniðinn
þrengri verufræðilegur stakkur en hann hefði sjálfur viljað verður því ekki á móti mælt að
nútíminn einkennist öðru fremur af gríðarlegri áreynslu, óhemjulegu átaki þar sem leitast
er við að beisla óreiðu raunheimsins og ljá umhverfi okkar merkingu og samfellu. Saga vís-
indanna er að mörgu leyti saga uppgötvunar orsakasamhengisins – kortlagning þess hvernig
hlutir tengjast í gegnum vensl og víxlverkanir. Greinafræðin eru nátengd þessum umsvifum
öllum.
Eitt af mikilvægustu heimspekiritum hughyggjunnar og rit sem gjarnan er túlkað sem lóð
á vogarskálar nútímavæðingarinnar, Phänomenologie des Geistes (Fyrirbærafræði andans, 1807)
eftir G.W.F. Hegel, má að sumu leyti sjá sem dæmisögu um þau menningarlegu öfl sem knýja
flokkunarfræðilega hugsun greinafræðanna.5 Það er að segja, framvinda bókarinnar lýsir sögu
heimsandans – en heimsandinn er hugtak sem illa hefur gengið að skilgreina; þeir sem fróð-
astir eru giska hins vegar annað hvort á sameiginlega æðri vitund mannsins eða einhvers
konar sægvitund hvurs helsta virknissvið er mannkynssagan – en framþróun hans mælist í vax-
andi hæfni til að skilja í sundur, flokka, beita hugtökum og skilgreina efnisheiminn. Allt gengur
þetta vonum framar segir Hegel en heimsandinn er samt ekki sáttur við sitt. Löngum stundum
situr hann stúrinn og óskar sér þess sem er utan seilingar: Sjálfbærni, hreinnar og óflekkaðrar
3 Það er ekki sérlega frumlegt að benda á muninn á skáldskaparfræðum Platós og Aristótelesar
og Plató kemur nær alltaf illa út úr slíkum samanburði. Nickolas Pappas bendir hins vegar á
að þversagnakennd afstaða Platós til fegurðar og lista (fegurð táknar hið góða í kenningakerfi
hans, en listin er meinleg vá) helgist að hluta til af því að á ritunartíma samræðutextanna voru
fagurfræðileg kerfi óþekkt og besta leiðin til að túlka skrif Platós á þessu sviði er að þau feli í
sér eins konar tilraun til að uppgötva og skilgreina hugtökin og viðfangsefnin sem síðar áttu
eftir að fylla upp í fagurfræðihugtakið. Í textum Platós verður lesandi bókstaflega vitni að því
þegar mörg grundvallarhugtök fagurfræðinnar eru skilgreind í fyrsta skipti: fegurð, eftirlík-
ing, innblástur, o.s.frv. Sjá Nickolas Pappas, „Plato’s Aesthetics“, The Stanford Encyclopedia
of Philosophy, Fall 2014 Edition, ritstj. Edward N. Zalta, sótt 3. október 2014 af http://plato.
stanford.edu/archives/fall2014/entries/plato-aesthetics/.
4 Zygmunt Bauman, Modernity and Ambivalence, New York: Cornell University Books, 1991.
5 G.W.F. Hegel, Phenomenology of Spirit, þýð. A. V. Miller, oxford og New York: oxford
University Press, 1977; Jürgen Habermas, The Philosophical Discourse of Modernity, þýð.
Frederick Lawrence, London og Cambridge: The MIT Press, 1990.
daVid a. ClEaRwatER