Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2014, Side 288
287
ástæðan fyrir því að kúrekadrekamyndin virkar í fyrstu örlítið truflandi, hún passar ekki
innan hins viðurkennda viðmiðunarramma.11 En þessari „truflun“mætti kannski líka lýsa sem
endurnýjun.
Forsenda þess að grein verði viðmiðunarrammi er endurtekning, sífelld og endurtek-
in notkun á sömu formúlunni, sömu frásagnarvenjunum og stílaðferðum. Fyrstu lífsmerki
greinar gera vart við sig – snöggt innsog, veiklulegur hósti – þegar endurtekningin hefur
greypt formúluna í stein. En formúla er ekki eðli, og ef hraustlegt eðli er til staðar er engin
þörf á „viðmiðunarramma“ eða „túlkun“ – einkennin sem skilgreina eðlið eru jafn náttúruleg
og augljós og sjálfsögð og eggin sem spendýrið góða, breiðnefurinn, verpir.
og það er leit að miðli og listformi sem getið hefur af sér fræðilega umræðu sem er jafn
gagntekin af rökvísi eðlishyggjunnar og leikjafræði; þetta „nýja“ svið hugvísinda sem gerir
tölvuleiki að viðfangsefni þurfti að berjast fyrir tilvist sinni á tíunda áratug síðustu aldar og
raunar vel fram á nýtt árþúsund. Kvikmyndir mættu fordómum á sínum tíma, myndasögur
gera það nú um mundir en mig grunar að hin fastmótuðu viðhorf sem leikjafræðin mætti á
sínum tíma innan akademíunnar og mætir enn taki jafnvel þessum fram.12 En þótt óvinveitt
öfl kunni að hafa verið auðfinnanleg utan mæra leikjafræðinnar var ástandið ekki friðsamlegt
innan fræðigreinarinnar sjálfrar og segja má að stofnanavæðing hennar sé nátengd því sem
gjarnan er vísað til sem „fyrsta klofnings greinarinnar“ eða „deilunnar miklu“. Þar er vísað
til stríðandi fylkinga svokallaðra frásagnarsinna annars vegar og spilunarsinna hins vegar en
þeim síðarnefndu var mjög áfram um að tölvuleikir væru sem miðill algjörlega aðskildir frá
eldri miðlum og hefðu ekki þegið neitt utangreinar í vöggugjöf. Sérstaklega var þeim upp-
sigað við frásagnarhugtakið – og fræðimennina sem beittu því, frásagnarsinnana – vegna þess
að þar var um augljósa tilvísun að ræða til eldri miðla á borð við kvikmyndir og bókmenntir.
Eðli tölvuleikja var slíkt að frásögn og frásagnarhugtakið var miðlunum allt að því óviðkom-
andi, táknaði í besta falli skraut og glingur. Spilunarsinnarnir litu á reglukerfið, formgerð
leikjanna, og spilunina, sem þá þætti sem bæði skildu miðilinn frá öðrum miðlum og væru
þeir þættir sem ættu að eiga greiðastan aðgang að athygli fræðimanna.
Norski fræðimaðurinn Espen Aarseth var í hópi þeirra fyrstu til að setja fram fræðilega
kenningu um tölvuleiki auk þess að vera miðlægur í stofnun leikjafræðinnar. Hann taldi auk-
inn fræðilegan áhuga á tölvuleikjum hafa orðið til þess að fræðimenn af ólíkum sviðum hófu
að fjalla um leiki. Aarseth telur að sú umfjöllun hafi þó yfirleitt verið á forsendum þeirra
eigin fræðasviða þar sem það var afar sjaldgæft að leitast væri við að finna nýjar lausnir eða
þróa nýjar aðferðir með tilliti til sérkenna miðilsins. Aarseth kallar þessa þróun „fræðilega
nýlendustefnu“ og heldur því fram að gildismat annarra miðla hafi öllu jafnan verið yfirfært
óbreytt yfir á hinn nýja miðil.13 Það var í þessu samhengi sem frásagnarhugtakið hlaut þá
athygli sem raun ber vitni; það var eitt af mikilvægustu verkfærum bókmennta- og kvik-
myndafræðinga og eðlilega fannst þeim ekki ástæða til að varpa því fyrir róða.
Gonzola Frasca steig fram með nýyrðið „spilunarfræði“ í greininni „Ludology Meets
Narrative: Similitudes And Differences Between (Video)Games and Narrative“ (1999).14
11 Guðni Elísson, „Í frumskógi greinanna“, bls. 12.
12 Simon Egenfeldt-Nielsen, Jonas Heide Smith og Susana Pajares Tosca, Understanding Video
Games. The Essential Introduction, New York og London: Routledge: 2008, bls. 195.
13 Espen Aarseth, „Genre Trouble“, Electronic Book Review, 2004, sótt 15. mars 2014 af http://
www.electronicbookreview.com/thread/firstperson/vigilant.
14 Þar á undan var hugtakið tengt við menningarlega leikjafræði í anda Homo Ludens (1938)
eftir Johan Huizinga. Sjá Jesper Juul, „First use of „Ludology“: 1951“, The Ludologist, 12.
nóvember 2013, sótt 15. apríl 2014 af http://www.jesperjuul.net/ludologist/first-use-of-
ludology-1951.
HVAð EINKENNIR TöLVULEIKJAGREINAR?