Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2014, Page 291
290
umsvifafrelsi sem jafnan er vísað til þegar leikir eru greindir frá „ógagnvirkum“ miðlum á
borð við flestar tegundir bókmennta og kvikmynda.
Þá gefur það jafnframt auga leið að ef sjálft frásagnarhugtakið er í ónáð er harla lítil þörf
á greinahugtakinu. Þetta hefur leitt til þess að greinafræði innan leikjafræðinnar hafa átt
erfitt uppdráttar og standa rannsóknir á greinafræðilegum vandamálum og úrlausnarefnum
sambærilegum rannsóknum innan annarra fræðigreina langt að baki. Raunar er sem greina-
hugtakið sé hálfvængstýft í fræðunum og leikjafræðin í heild líður fyrir það.
Þessu heldur David Clearwater í öllu falli fram í greininni sem hér fylgir á eftir, „Hvað
einkennir tölvuleikjagreinar? Vangaveltur um greinafræði eftir rofið mikla“, en hana má lesa
sem öflugt uppgjör við ýmsar viðteknar hefðir og ríkjandi viðhorf innan leikjafræðinnar.
Að mörgu er að hyggja í grein þessari og raunar er óhætt að halda því fram að Clearwater
noti kreppu greinahugtaksins til að gera býsna heildstæða úttekt á stöðu leikjafræðanna nú
um mundir, auk þess sem hann færir knýjandi rök fyrir gildi greinahugtaksins innan sviðs-
ins. Grein Clearwaters er því í senn ferðalag um lendur nýrrar fræðigreinar, úttekt á meini
sem hrjáir greinina, hugmyndabanki um hvernig bregðast megi við vandamálunum og svo
afskaplega þaulhugsuð og vandvirk umfjöllun um greinahugtakið sjálft. Lesendur eiga ekki
síst eftir að reka augun í þau „svæði“ sem greinafræðilegar rannsóknir innan leikjafræða hafa
þegar afmarkað sem mikilvæg rannsóknarviðföng sem eru gjörólík þeim virknisþáttum sem
jafnan eru í umræðunni um greinar í öðrum listformum.
Björn Þór Vilhjálmsson
daVid a. ClEaRwatER
Hvað einkennir tölvuleikjagreinar?
Þegar Aki Jarvinen ræðir um hvernig tölvuleikurinn Halo: Combat Evolved
blandar saman mismunandi greinahefðum viðurkennir hann í glensi að
„jafnvel þótt leikjafræðingur verðskuldi löðrung fyrir hvert skipti sem
hann/hún ber saman leik og kvikmynd, stenst ég samt ekki freistinguna
að …“.1 Ég nefni þessa galgopalegu athugasemd því að á vissan hátt hefur
leikjafræði orðið fyrir áhrifum af umfangsmeiri kennilegri rökræðu um
kjarna tölvuleikja sem miðils; rökræðunni um „frásögn andspænis leikja-
fræði”. Spilunarsinnar hafa haldið því fram að spilun leiksins skipti sköp-
um. Hlutverk spilarans, ákvarðanir og aðgerðir hans sé það sem aðskilji
tölvuleiki frá öllum öðrum miðlum.2 Fyrir vikið er miðillinn fyrst og fremst
skilgreindur út frá gagnkvæmni hans og hermivirkni, fremur en túlkun og
framsetningu, og þættir á borð við reglur, markmið og lyktir leiksins eru
1 A. Jarvinen, „Halo and the Anatomy of the FPS“, Game Studies, 1/2002, efnisgr. 6,
sótt af http://www.gamestudies.org/0102/jarvinen/. [Þýð.: „ludologist“ er hér þýtt
sem „spilunarsinni“ en „frásagnarsinni“ er notað fyrir „narratologist].
2 [Þýð.: Um deilu frásagnar– og spilunarsinna er fjallað í greininni „Frásögn eða
formgerð? Tölvuleikir, leikjamenning og umbrot nýrrar fræðigreinar“ eftir Björn
Þór Vilhjálmsson og Nökkva Jarl Bjarnason sem birtist í þessu hefti.]