Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2014, Page 330
329
Nick Couldry
Stafræn miðlun í ljósi félagsfræðinnar
Inngangur þýðanda
Greinin sem hér birtist er þýðing á inngangskafla ritsins Media, Society, World: Social
Theory and Digital Media Practice eftir Nick Couldry, prófessor í miðlun, samskiptum
og félagsfræði við miðlunar- og samskiptafræðideild Hagfræði- og stjórnmálafræðihá-
skólans í London.1 Bókin var gefin út árið 2012 en þá var Couldry yfir miðlunarfræði-
og samskiptafræðideildinni við Goldsmiths listaháskólann í London. Nick Couldry er
mikilvirkur fræðimaður og hefur birt sem aðalhöfundur og meðhöfundur mikið magn
greina um miðlun í tímaritum á borð við New Media & Society, International Journal of
Communication og Journal of Broadcasting and Electronic Media. Auk þess hefur hann rit-
stýrt ritum um miðlun og skrifað bókakafla og bækur um efnið. Áður en Media, Society,
World kom út hafði Couldry að mestu gefið út bækur innan miðlunarfræða: The Place
of Media Power: Pilgrims and Witnesses of the Media Age (2000), Media Rituals: A Critical
Approach (2003), Listening Beyond the Echoes: Media, Ethics and Agency in an Uncertain
World (2006) og Why Voice Matters: Culture and Politics After Neoliberalism (2010). Árið
2013 gaf hann út bókina Ethics of Media sem er að mörgu leyti eðlilegt framhald þeirr-
ar bókar sem hinn þýddi inngangskafli hér er hluti af en í lokakafla Media, Society,
World er tekist á við siðferðilegar spurningar undir yfirskriftinni „Media Ethics, Media
Justice“.
Í sjö meginköflum bókarinnar sem fylgja í kjölfar þessa inngangs setur Couldry fram
hugmyndir um verkfæri sem nýta má við félagsfræðilegar miðlunarrannsóknir í sam-
tímanum. Verkfærakassinn grundvallast á þeim skilningi að miðlun sé safn mismunandi
leiða fyrir manninn til þess að athafna sig í heiminum. Hann kynnir til sögunnar leiðir
til þess að skoða hvernig miðlunarstofnanir framsetja sig sem tengipunkta fólks við
umheiminn og hvernig rannsaka megi út frá slíkum athugunum áhrif þessara stofnana
á hinn félagslega heim. Enn fremur gerir hann tilraun til þess að afhjúpa mýtur varð-
andi áhrif nýrrar miðlunartækni á hið félagslega og stjórnmálalega og beinir sjónum
lesandans að duldari og stórsærri áhrifum aukinnar miðlunar á ýmis svið samfélagsins
sem tengjast miðlun ekki endilega beint, líkt og mennta-, dóms- og heilbrigðiskerfið.
Couldry sýnir líka hvernig kanna megi miðlun í hnattrænu samhengi út frá mismun-
andi menningarheimum. Inngangurinn er upptaktur að þessum nálgunum á miðl-
unarrannsóknir og þjónar þeim tilgangi að kortleggja stöðu miðlunarfræða um þessar
1 Nick Couldry, „Introduction: Digital Media and Social Theory“, Media, Society, World: Social
Theory and Digital Media Practice, Cambridge, UK and Malden, MA: Polity Press, 2012, bls.
1–32.
Ritið 3/2014, bls. 329–385