Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2014, Side 338
337
STAFRÆN MIðLUN Í LJÓSI FÉLAGSFRÆðINNAR
hægt að gera, hvar og af hverjum. Ef þetta er svo þá verður hin hugmynd
Innis um „tímamiðaðan“ miðil (skrift og pappír) æ óaðgengilegri í heimi
þar sem bæði tími og rúm hafa umbreyst fyrir tilstuðlan athafnasviðsins
sem internetið er.
Myndlíkingar um breytta miðlun
Mikilvægi miðlunar fyrir samfélagið og heiminn má ekki skilja sem línulega
þróun.18 Þegar miðlar eru samþættir víðari menningarlegum og félagsleg-
um ferlum myndast togstreita og mótsagnir. Í magnaðri skáldsögu sinni,
Í leit að glötuðum tíma, dregur Marcel Proust upp mynd af fyrsta símtali
sögumannsins en vefur inn í frásögnina minningar um ýmis seinni tíma
símtöl:
[Um] leið og hringingin hefur hljómað … dauft hljóð – afstætt –
hljóð fjarlægðar sem gerð hefur verið að engu – og rödd ástvinarins
talar til okkar … En hve fjarri hún er! Hve oft hefur mér verið það
ómögulegt að hlusta án þess að finna til angistar, líkt og … ég fyndi
skýrar fyrir sjónhverfingunni sem býr í ásýnd þessarar ljúfustu nær-
veru og fjarlægðinni sem getur skilið okkur frá þeim sem við elskum
á sama augnabliki og við virðumst einungis þurfa að teygja fram
höndina til þess að halda þeim hjá okkur. Hún er raunverulega hér
þessi nálæga rödd – en þó svo fjarri!19
Í þessari lýsingu á persónulegum sársauka, sem finnur sér farveg í sam-
skiptatækni, nær Proust utan um margræðnina sem er ásköpuð hlutverki
miðlunar í hversdagslífinu – „raunverulega hér … en þó svo fjarri!“ – jafn-
vel þótt síminn hafi breyst svo mikið núna að hann líkist lítið uppruna-
legri útgáfu sinni og við skynjum ekki lengur sömu spennu og Proust.20
18 Andreas Hepp, „Researching “Mediatised Worlds”: Non-Mediacentric Media and
Communication Research as a Challenge“, Media and Communication Studies: Int-
erventions and Intersections, ritstj. Nico Carpentier og fleiri, Tartu: Tartu University
Press, 2010, bls. 37–48, hér 39–40; Régis Debray, Media Manifestos, London: Verso,
1996, bls. 15.
19 Marcel Proust, Remembrance of Things Past, 2. bindi, The Guermantes Way og The
Cities of the Plain, ensk þýðing C.K. Scott Moncrieff og Terence Kilmartin, Harm-
ondsworth: Penguin, 1983. [Þýð.: Íslensk þýðing á þessum hluta verksins Í leit að
glötuðum tíma hefur ekki komið út. Þýðing er greinarþýðanda.]
20 Ég skrifaði þennan hluta áður en ég fann áhugaverð skrif John Tomlinson um sama
brot þó svo að þar sé efnið nálgast á annan hátt. John Tomlinson, The Culture of
Speed, London: Sage, 2007, bls. 119–120.