Skagfirðingabók - 01.01.1996, Blaðsíða 50
SKAGFIRÐINGABÓK
sennilega djákni á Munkaþverá. Hann var fæddur um 1697,
drukknaði 1723 í skreiðarför til Grímseyjar. Enn voru á meðal
þessara systkina Jón, f. um 1696, og Sigríður, f. um 1702, en
ekki er vitað hvað um þau varð.
Það styður þessa tilgátu um ruglinginn á föðurnafni Ólafs að
hann skuli hafa verið talinn bróðir „Jóns bónda á Urðum í
Svarfaðardal". Ekki er öðrum Jóni Sigurðssyni bónda á Urðum
til að dreifa en einmitt Jóni syni Sigurðar á Karlsá. Jón (1736-
1821) var hreppstjóri, umboðsmaður Urðajarða, þjóðhagasmið-
ur og búmaður mikill, „stórvel gefinn maður og vel sjálf-
menntaður" eins og segir í Svarfdœlingum (II, bls. 73), hand-
ritaskrifari, dagbókarritari og mesti merkis- og sómamaður í
hvívetna, þótt Páll Eggert missi hans í æviskrám sínum. Auð-
sæilega hefur tekist svo meinlega til að Ólafur faðir Guðrúnar
söguhetju okkar hefur verið talinn sonur Sigurðar bróður síns
og þar með bróðir þessa ágæta bróðursonar síns.
Jón lögréttumaður og Hólasmiður, faðir Ólafs, var dugnað-
arbóndi, vel efnaður og mikið við ýmis embættisverk riðinn í
Svarfaðardal. Um hann segir svo í Svarfdœlingum (II, bls. 381);
Jón var góður smiður, „einkum á drifverk og söðla“, seg-
ir Espólín í ættabókum sínum. Munnæli herma að hann
hafi hjálpað Eyvindi við duggusmíðina og víst er að hann
réðst að Hólum til að vinna eingöngu að smíðum, enda
voru næg verkefni fyrir hagan mann á því stórbúi. Jón
var talinn skáldmæltur og mun í flestum efnum hafa
verið hinn mætasti maður ... I annál einum er getið um
lát Jóns með þessum orðum: „deyði Jón Jónsson smiður
á Hólastað, gáfu- og listamaður".
Annállinn sem þarna er getið er Höskuldsstaðaannáll séra
Magnúsar Péturssonar.18
18 Annálar 1400-1800 IV, bls. 477.
48