Skagfirðingabók - 01.01.1996, Blaðsíða 116
SKAGFIRÐINGABÓK
gangsskiki, sem verður milli landnáms Brúna og Þórðar knapps
í Stíflu. Þó Holtsland sé ágætis heimajörð, hefur Halli líklega
þótt upprekstrarland Holts heldur rýrt, aðeins vestari hluti
Mjóvadals. Því er ekki úr vegi að ætla, að Hallur hafi ósjaldan
haft á því orð að nauðsyn bæri til að eignast meira land-
rými. Hugleikið hefur honum líklega verið að eignast a.m.k.
Mjóvadalinn allan. Því má ætla, að hann hafi fundið Brúna eða
afkomanda hans, sem réð fyrir löndum Brúnastaða, og falast
eftir kaupum á Mjóvadal. Hafi Hallur sótt þetta fast eða oft til
Brúnastaðamanna er ekki erfitt að ímynda sér, að viðurnefnið
hafi hann þannig getað hlotið. Eitt er þó víst, að undir Holt
komst Mjóvidalur allur, Ólafsfjarðardalur og Hnjúkarnir ofan
frá hæsta punkti (Grænuvallahnjúk) niður í Mjóvadalsá um
Merkjalæk, sem enn skilur land Brúnastaða og Holtstorfunnar.
Mjóvadalsnafnið hefur síðan fallið niður, og nafnið Holtsdalur
orðið allsráðandi. Nafnabreytingin á dalnum getur verið til-
viljun ein, en sá möguleiki er til, að eftir að Holtsmenn eignast
dalinn allan, hafi þeir talið það tryggara upp á seinni tíma, að
dalurinn bæri nafn Holts. Þá verður heldur torveldara að bera
brigður á breytt eignarhald dalsins.
Niðurstaða
Af öllu framanrituðu verður niðurstaða mín sú, að munnmæla-
sagan um landnámsbæ Bárðar Suðureyings á tungunni austan
Mjóvadalsár fái ekki staðist. Sé munnmælasagan að hluta til
sönn, þ.e. að um einhverja búferlaflutninga hafi verið að ræða,
tel ég líklegast, að Bárður hafi í skamman tíma búið þar sem
nú er eyðibýlið Ríp áður en endanlegt bæjarstæði var valið, þar
sem nú stendur Holt. Líklegast finnst mér þó, að landnámsbær
Bárðar Suðureyings hafi frá upphafi staðið þar sem Holt er nú
og bærinn hafi frá upphafi heitið Holt. Spurningunni, hvort
Hallur Mjódælingur hefði flutt bæjarstæðið, myndi ég því
svara neitandi.
114