Skagfirðingabók - 01.01.1996, Page 76
SKAGFIRÐINGABÓK
Börn Ásmundar sjálfs sem um er vitað voru auk Jóns á
Þönglaskála áðurnefnd Rannveig og Ingimundur og enn hefur
sonur Ásmundar verið Nikulás nokkur, sem brátt víkur að.
Víst er að „Guðrún úr Fljótum" var ekki móðir Rannveigar,
því að barna Guðrúnar og Konráðs í Bæ er að engu getið í
skiptagerðinni eftir hana. Líklegast er því að Guðrún hafi verið
seinni kona Ásmundar og að Jón, Ingimundur, Rannveig og
Nikulás hafi öll verið fyrri konu börn hans.
Sakeyrisreikningarnir 1717-1718 (í Rentukammerskjölum
Y 19) sýna reyndar að þetta hlýtur að vera rétt ályktað. Þar er
að finna afrit af skýrslu sr. Þorfinns Þórðarsonar í Felli, dags.
30. maí 1718, þess efnis að Ásmundur Sveinsson og Ósk
Nikulásdóttir hafi orðið legorðssek í Fellssókn á næstliðnu ári,
bæði í fyrsta sinn. Nær öruggt má telja að Ósk hafi síðan orðið
kona Ásmundar. Foreldrar hennar voru Rannveig Gísladóttir
og Nikulás Bjarnason, búandi hjón á Keldum í Sléttuhlíð
þegar manntalið 1703 var tekið. Ósk er þar þá hjá þeim, 9
vetra og hefur því verið átta árum yngri en Ásmundur, fædd
um 1694. Rannveigarnafnið á dóttur Ásmundar bendir að
sjálfsögðu til þess að Ósk hafi orðið fyrri kona hans og senni-
lega hefur hún verið móðir allra ofannefndra barna hans. -
Nikulás faðir hennar bjó á Vatni á Höfðaströnd 1735 og á
Tjörnum í Sléttuhlíð 1742 og hefur því orðið gamall maður.
Þegar þetta er allt lagt saman verður að telja næsta víst að
eitt af börnum Ásmundar í Málmey hafi verið áðurnefndur
Nikulás Ásmundsson, d. 1769 í Hofssókn. Af honum er
nokkur saga, skráð í Dóma- og þingbók Skagafjarðarsýslu
1753-1761 (bls. 87-89). Þar segir af því að Nikulás varð sekur
um stuld á þremur ám, einni frá hverjum: monsjör Sigfúsi
Sigurðssyni á Tjörnum, síðar presti í Felli, Jóni Eiríkssyni á
Höfða og séra Jóni Guðmundssyni, sem skömmu síðar varð
prestur á Hvanneyri í Siglufirði. Nikulás jafnaði tiltektum
sínum því niður af nokkurri réttsýni á helstu máttarstólpa
byggðarlagsins!
74