Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1981, Blaðsíða 43
MULAÞING
41
lok úr gólfborðum. Féll neðra lagið niður í opið en efra lagið náði nokkra
cm út fyrir. Þar sem opin voru ekki nákvæmlega jafnstór voru skornar
rómverskar tölur á lokin.
Kistuopin hafa ekki verið færri en 10 og e.t.v. eitthvað fleiri, mér
íinnst ég muna eftir rómverskum tólf. En stafirnir voru býsna haglega
skornir. Trúlegast þykir mér að opin hafi verið þrjú eða fjögur á
hverjum vegg, þó e.t.v. fæst að austan, því þar voru dyrnar.
Enginn gluggi var á þessum byggingum, en hleri á stafni loftsins og
var hann opnaður þegar ,,lagt var í.“ Þak frystigeymslunnar var
járnklætt og útveggir úr plægðum borðum, liggjandi klæðning.
Frosthúsinu fylgdi frosthústjörnin, öðru nafni Konráðstjörn. Hún er
skammt austan við húsið, var um 20 m löng og um 10 m breið og 2-3 fet
á dýpt. A seinni árum var gerð sérstök brú á Götuhúslækinn, sem er á
milli tjarnar og húss og sléttur stallur frá brúnni inn að ískjallaranum til
þess að auðvelda flutninga á hestsleða. Var þessi vegur þakinn með
túnþökum og sést enn.
Ymis tæki og verkfæri voru notuð við reksturinn og átti frosthúsið eða
frosthúsfélagið sum þeirra. Skulu hér nokkur talin: Járnkarlar, ístang-
ir, sleðar, handbörur, rekur, stampar, fötur, pönnur, trékylfa, luktir,
decimalvog og nokkur lóð, sög o.fl. að ógleymdum ískvörnunum, sem
munu hafa verið tvær.
Rétt mun að lýsa stuttlega þeim verkfærum, sem voru sérstaklega
gerð til þessara nota. Istangirnar voru tvíarma. Kjafturinn víður svo
næði um þykkustu ísjaka, ég giska á allt að 40 cm. Handföng voru á
endanum og sneru þau þvert á griparmana. Tangirnar gætu hafa verið
um 120 cm langar.
Pönnurnar sem ég man eftir voru af tveimur stærðum, þær eldri
nokkru lengri. Dýptin var miðuð við eitt lag af síld og var síldin lögð á
bakið. Lok var á pönnunum. Var það raunar óhjákvæmilegt vegna
notkunarinnar, sem síðar verður lýst. Um lengd og breidd skal ég ekki
fullyrða. Þær voru ívið minni en þær pönnur, sem ég hef séð notaðar í
frystihúsum nú.
Trékylfan var ævinlega kölluð kjulla. Hausinn var úr trjábút, á að
giska 12 cm í þvermál og 35 cm langur. Hæfilega sterkt tréskaft var svo
fest í gat, sem gert var á þennan haus miðjan. Gæti skaftið hafa verið
röskur metri á lengd. Hausinn var gyrtur til beggja enda með gjörðum
úr venjulegu gyrði svo hann þyldi betur viðkomuna þegar ís var mulinn.