Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1981, Side 122
120
MÚLAÞING
hvarvetna á langri ævi gegnt skyldum sínum þannig að betur varð ekki
gert. Eg tel að engin húsmóðir hafi betur fylgst með skólabörnunum en
hún, úti jafnt sem inni, þar sem ég hafði kynni af farskóla. Ég ritaði
nokkur minningarorð um hana látna og birtust þau í tímaritinu „Heima
er best“ 12. tbl. árið 1967.
Þegar ég er að leggja síðustu hönd á þetta verk finnst mér margt svo
mislukkað að best færi á því að kasta því öllu í ruslakörfuna og gera
aðra tilraun. En þess ber að gæta að því mundi fylgja nokkur áhætta, að
vísu mætti ef til vill færa eitthvað til betri vegar. En víst er að á yrðu þó
einhverjir hnökrar, sennilega engu minni, ,,og hvar er þá nokkuð, sem
vinnst?“
Eg fagna því að eiga nokkurn þátt í skólasögu Eiðahrepps, ekki
sérstaklega því að hafa skrifað þennan þátt, heldur hinu að hafa starfað
í sveitinni og eiga minningar frá þeim tíma.
„Veistu, ef þú vin átt,
þanns þú vel trúir,
far þú að finna oft,
því að hrísi vex
og hávu grasi
vegur, er vættki treður.“
(Hávamál)
Sumarið 1961 hringdi til mín fyrrverandi nemandi, bóndi í Eiða-
hreppi. Vildi hann gjarnan fá að vita hvort ég hefði í huga að heimsækja
sig og fleiri sveitunga á því misseri. Ég kvað svo vera. Skömmu síðar
áréttaði hann þetta og fékk þá vissu um hvenær ég kæmi.
Mig minnir að hann væri staddur á Egilsstöðum er ég kom austur. Ok
hann þegar með mig heim í hlað. Þá kom skýringin á forvitni hans.
Hann greindi frá því að Eiðaþinghármenn hygðust halda mér samsæti
áður en ég héldi aftur heimleiðis, væri ég því samþykkur. Hvort sem
um þetta var rætt meira eða minna varð niðurstaðan sú að ég tók þessu
sæmdarboði með þökkum.
Ég vissi að vísu að þeir báru hlýjan hug til mín. En aldrei kom mér í
hug að þetta ætti ég eftir. Auðvitað hugði ég gott til að eiga dagstund í
vinahópi. Höfðu nú Eiðaþinghármenn allt ráð mitt í höndum sér næstu
daga.
Tiltekinn dag, hinn 23. ágúst, skein sól yflr sveit. „Þá var vinreið á
vegum öllum“ um Eiðahrepp. Víðsvegar um sveitina voru bæir mann-
lausir þessa stund. Hófið var í barnaskólahúsinu á Eiðum.