Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1981, Blaðsíða 207
MÚLAÞING
205
Eg lét nú kalla á Guðmund fylgdarmann minn. Hafði hann beðið á
Eskifirði með hestana allan tímann meðan eg var á Fáskrúðsfirði.
Spurði eg hann um hestana og segir hann að þeir séu þar uppi í
brekkunum. Segi eg honum að taka hestana svo lítið beri á og leggja
hnakk minn á besta hestinn á bak við húsið.
Meðan á því stóð fór eg að klæða mig. Þegar Guðmundur kom aftur
og sagði að lagt væri á og allt búið til ferðar, sendi eg hann til
veitingamannsins til þess að borga næturgreiðann, en fór sjálfur út til
hestanna.
Einmitt þegar eg er að stíga í ístaðið ber þar að Zeuthen lækni. Spyr
hann mig fyrst hvort eg sé vitlaus. Eg tók því fjarri, en sagði að mér lægi
mjög á að komast til Seyðisfjarðar ef unnt væri. „Þú kemst þangað
aldrei,“ sagði Zeuthen, ,,þú verður að snúa aftur einhvers staðar hérna
frammi í hlíðinni.“ „Jæja,“ sagði eg, „eg reyni hve langt eg kemst og
sný aftur þegar eg kemst ekki lengra.“
Gömul staksteinótt gata lá frá bænum fram að þjóðveginum. Var
takið svo slæmt meðan eg fór eftir henni, að í hvert sinn sem hesturinn
skriplaði á steinunum, varð eg að stinga fingrunum sem fastast í
síðuna, þar sem takstingurinn var. En þegar kom á þjóðveginn dansaði
klárinn upp brekkurnar og fór þá svo, að þegar komið var upp á
heiðarbrúnina, var takið horfið og beinverkirnir. Eg hafði þrjá hesta til
reiðar, skipti um hesta á hverjum klukkutíma og fór ærið hart yfir.
Lögðum við af stað frá Eskifirði kl. 11 árdegis og komum til Seyðisfjarð-
ar kl. 6 síðdegis og höfðum þannig farið leiðina yfir Eskifjarðarheiði og
Fjarðarheiði á sjö klukkustundum.
Þegar til Seyðisfjarðar kom, fór eg á fund Einars Thorlacíusar
sýslumanns og tók hann með mér út á Vestdalseyri.
Hittum við nú Sigurð verslunarstjóra og bað eg hann að ná í þá
vesturfara sem ætluðu að trássast við að borga Gránufélaginu skuldir
sínar. Gerði hann það, og þegar þeir komu hótaði eg þeim því að eg léti
sýslumann kyrrsetja þá ef þeir borguðu ekki. Og varð sá endir á að þeir
borguðu allir og fóru svo með skipinu um nóttina.
Næsta dag var eg orðinn heill heilsu. Kom þá Petersen með skipið frá
Fáskrúðsfirði til Seyðisfjarðar. Var skipið skírt „Rósa".
Tveim dögum síðar sigldi Petersen með skipið til Rudköbing á
Langalandi til viðgerðar. — Skip þetta hefir verið eitt hið farsælasta og
besta siglingaskip sem verið hefir í ferðum milli Islands og Danmerkur.
Sigldi það fyrir Gránufélagið meðan það starfaði og er enn (1917) í
förum milli íslands og Danmerkur.