Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1981, Síða 53
MULAÞING
51
KHB til mín, hafði frétt af mér. Eftir að við höfðum heilsast, barst talið
að því, hvenær eg ætlaði að leggja til heiðarinnar aftur. Eg sagði honum
að eg ætlaði á stað þegar ég væri búinn að binda, veðurútlit væri slæmt,
og ætlaði eg að reyna að komast yfir heiðina áður en gengi í veður.
Brynjólfi leist ekki meira en svo á þessa ákvörðun, en sagði aðeins: ,,Þú
kemur heim og færð þér að borða áður en þú ferð.“ Þegar eg var búinn
að hafa allt til fór eg heim að Tungu, en þar bjuggu þau Brynjólfur og
Asta kona hans. Eg hafði lengi gist hjá þeim í kaupstaðarferðum.
Brynjólfur sagði mér að veðurstofan spáði byl með morgninum, og
vorum við sammála um að ekki væri til setunnar boðið. Eftir að hafa
borðað indælan mat, kvaddi eg fólkið, fór niður í sláturhús, lagaði
reiðfærin á hestunum og herti á gjörðum, og byrjaði að láta upp. Þá
komu tveir eða þrír Fljótsdælingar til að líta eftir hestum sínum. Þeim
verður að orði: „Þú ert bara að leggja á stað.“ Eg játa því, segi að það sé
ekki um annað að gera, það sé spáð byl með morgninum. Eg spyr þá
hvað þeir ætli að gera. Þeir segja að það sé meiningin að gista, og það
með að menn séu búnir að dreifa sér til gistingar í þorpinu. Þeim leist
ekki meira en svo á að eg legði einn á stað undir nóttina, en hjálpuðu
mér samt að láta upp. Eg kvaddi þá, opnaði húsið og hleypti hestunum
út, og þeir runnu þegar á slóðina. Veðrið var kyrrt, alskýjað og komið
náttmyrkur.
Lestin þokaðist hægt inn eyrarnar og Áreyjadal, og er eg ekkert að
teygja úr frásögn af því ferðalagi inn undir Drangsbrekkur.
Þar lá slóðin hátt í hlíðinni í miklum hliðbratta, og hafði kófað í hana
þarna í brekkunum. Eg hafði haft Brúnku mína síðasta, svo eg gæti sest
á bak öðru hvoru til að hvíla mig. Nú teymdi eg hana fram fyrir lestina,
lagði upp á hana tauminn og vísaði henni á slóðina, sem hún þræddi á
undan, en eg gekk meðfram lestinni til að fylgjast með að allt væri í lagi.
Þannig þokaðist lestin áfram í dimmri nóttinni.
Þegar kom á Hvalvörðu herti eg á afturgjörðunum, svo ekki snaraðist
fram af þegar halla tæki niður í Brúðardalinn. Fór nú brátt að lýsa af
degi. Veðrið var stillt en mjög kalt. Gekk ferðin vel niður Brúðardalinn
og út Þórudalinn. Eftir að bjart var orðið var eg af og til að horfa til
baka. Þegar eg er kominn yst í Þórudalinn varð eg óneitanlega nokkuð
forviða — við að sjá fyrstu hestana í lest Fljótsdælinganna koma niður
Brúðardalshálsinn. Eg man það enn eftir 45 ár, hvað eg varð forsjóninni
þakklátur — eg hafði þá ekki verið einn á heiðinni.
Þegar eg kom út á Hallbjarnarstaðahálsinn og sá út yfir Héraðið, var
sem sæi í svartan vegg, fyrirboða þess að óveður væri í nánd. Mér