Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1981, Blaðsíða 45
MÚLAÞING
43
frosthúsin komu til sögunnar var meginsíldveiðitímabil Norðmanna að
baki. En eitt og eitt nótalag munu þeir þó hafa rekið fram um aldamót.
Eftir að ég man til byggðist beituöflun á Mjóafirði að miklu leyti á því,
sem heimamenn veiddu með lagnetum eða fyrirdrætti. En einnig var
síld keypt af síldveiðiskipum (innlendum) og í örfá skipti fengin lengra
að og allt frá Noregi. Var sú síld flutt í flötum trékössum: Hygg ég, að
hún hafi verið fryst ytra og einangruð eftir föngum í lestum flutninga-
skipanna. Þetta hlaut að vera miklum vandkvæðum bundið, enda
reyndist „norska síldin“ misjöfn að gæðum þótt stundum fiskaðist
allvel á hana.
Lagnetin voru lögð þvert út frá landinu oftast nær, grunnendinn
bundinn í landtógið og djúpendinn í útfara. A enda útfarans var dregg
sem hélt netinu frá landi. Stöku sinnum voru netin lögð langs með
landinu eða fjörunni, þá þurfti vitanlega tvær dreggjar. Netunum var
síðan sökkt misjafnlega djúpt eftir atvikum. Ekki var sama hvar lagt var
út frá landinu. Þótti t.d. eftirsóknarvert að binda í brúna á Brunnhús-
læknum (bæjarlækur) fram undan Brekku, en í hann var veitt skolpinu
úr eldhúsinu heima og sótti síldin í þá ,,mengun“. Þessi net voru látin
liggja dögum saman, en farið með þeim á daginn og síldin tínd úr. Veiði
í lagnetin gat orðið drjúg. Var beitt blóðugri síldinni þá daga sem veiði
og beitning fóru saman. En ef meira veiddist en fór til beitu þann og
þann daginn, þá þurfti að frysta.
Það var ekki síður þegar kastað var fyrir með góðum árangri, að kom
til frystingar. Sú aðferð var aðeins viðhöfð þegar síldin óð í torfum.
Reru þá tveir menn út á fjörð á skektu með eitt net innanborðs og
köstuðu því fyrir framan vaðandi torfuna. Stundum breytti síldin stefnu
og slapp, en ef heppnin var með hljóp hún beint í netið. Man ég eftir
hátt í 10 skrokkum í einn netstubba. En þá kom síldarhnífill (hrefna) að
torfunni réttu megin og rak hana í netin.
Þegar síld skyldi frysta, var hún flutt í fjöruna fyrir neðan frosthúsið
á árabátum eða skektum. Fyrst þegar ég man eftir var notuð ,,laus“
bryggja, sem ýtt var fram í flæðarmálið eftir því hvernig stóð á sjó. Hún
var vitanlega þykkust eða hæst fremst, en smáþynntist nokkurn veginn
eftir halla fjörunnar þannig að dekkið á henni varð því sem næst lárétt.
Síldin var svo látin í stampa eða önnur ílát, sem menn báru gjarnan á
milli sín upp í frystiskúrinn. En hann stóð eins og fyrr segir sunnan eða
neðan við ískjallarann rétt ofan við fjöruna. Þar var síldin vigtuð og
síðan raðað í pönnur, pönnuð eins og það var kallað. Var hún lögð
þversum í pönnurnar þannig að haus vissi út en sporður inn og mun svo