Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1981, Síða 92
90
MÚLAÞING
(1683—1745). Hann vissi ekkert um kunnáttu safnaðarins, kveðst spyrja
á föstunni og húsvitja einu sinni á ári, fólk sækir illa kirkjur og húsagi
linur. Séra Guðmundur Högnason var talinn vel að sér og merkur
maður. I Þvottársókn eru 44 sálir, 19 ólæsar en 25 læsar. Presturinn,
séra Þórarinn Jónsson (1732—1741), talinn hinn ólærðasti og lélegasti á
Austfjörðum. Vildi Ludvig Harboe að hann gengi undir próf hjá biskupi.
Þannig er alþýðumenntunin um það leyti, er verslunarskilmálar
Hörmangarafélagsins taka gildi, en þeir eru dagsettir 13. júlí 1742. Það
er alkunna, að engin verslun hér á landi hefur orðið iOræmdari og bar
margt til þess. I fyrsta lagi voru Hörmangarar með öllu ókunnugir
íslenskum verslunarháttum þegar þeir tóku verslunina í sínar hendur
árið 1743. Vildu þeir ekki hlíta ráðum annarra um nokkurn skapaðan
hlut. Þá voru þeir mjög harðdrægir í viðskiptum og hirtu lítt um
skuldbindingar sínar. Þingvitni var tekið að Holtum í Hornafirði 10.
okt. 1746 um verslun á Djúpavogi undanfarin ár, kom þar margt ófagurt
á daginn. Hafði t. d. Högni prófastur Sigurðsson fengið nokkrar
mjöltunnur og reyndist það í sumum tunnunum „mórautt eður so nær
svart í miðjunni“ og að þriðjungi eða meir ódrýgra, en ef óspillt væri, og
í einni tunnunni voru tveir vænir steinar og var annar þeirra lagður fram
til sýnis á þinginu. Þá kom og bóndi einn með sýnishorn af mjöli á
þingið, og reyndist það aldeilis ónýtt og óforsvaranlegt og ekki í
mannamat brúkanlegt. Ennfremur reyndist járn það, er flutt var í
kaupstaðinn, óhæft til smíða, svo menn komust eigi leiðar sinnar vegna
járnleysis, og varð prófastur að sleppa húsvitjan af þeirri ástæðu.
Sömuleiðis reyndist léreft og önnur álnavara slæm og gisin og talsvert
mjórri en venjan var, án þess þó að slakað væri til á verðinu, og svo var
um flestar aðrar vörutegundir.
Arið 1788 kaupir danskur maður að nafni J. L. Busch verslunina og
rekur hana samfleytt í 30 ár, eða til ársins 1818, en þá kaupir
verslunarfélagið „Orum og Wulff“ hana, og verslar á Djúpavogi til
ársins 1920. Þá er Kaupfélag Berufjarðar stofnað og hefst nýr kafli í
verslunarsögunni, en hann verður ekki rakinn hér.
HEIMILDIR:
' Njáls saga.
2 Jón J. Aðils: Einokunarverslun Dana á Islandi 1602-1787.
3 Jón Helgason: Tyrkjaránið, Rv. 1963.
4 Eiríkur Sigurðsson: Undir Búlandstindi, Ak. 1970.
5 Oddur Einarsson: Islandslýsing, Rv. 1971.
6 Oli Guðbrandsson: Lestrarkunnátta í Múlaþingi 1744, Múlaþing5 hefti 1970.