Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1981, Qupperneq 81
MULAÞING
79
VI.
Arnbjörg hélt áfram útgerð frá Sigurðarstöðum eftir að hún missti rnann
sinn. Um þessar mundir komu fyrstu vélbátarnir til sögu hér á landi.
Arnbjörg var meðal þeirra, sem fyrst fóru að huga að útgerð vélbáta á
Seyðisfirði.
Á árinu 1905 fékk hún tvo smiði til þess að smíða fyrir sig 5-6
smálesta bát. Var bátur þessi fljótt smíðaður, en tæplega svo traustur
sem skyldi. Látið var nægja kjölur, stefni, byrðingur, strjál bönd og
tvær þóftur, þá var báturinn fullgerður. I bát þennan var sett fjögurra
hestafla Möllerupsvél. Þegar sjósókn á bát þessum hafði staðið í eina
viku eða svo, kom í ljós hve veikbyggður hann var, svo ekki þótti fært
að gera hann lengur út til fiskveiða. Var vélin þá tekin úr honum og
hann settur á land upp fyrir pakkhús. Formaður á bátnum í þeim fáu
sjóferðum sem hann fór var mikill aflamaður, að nafni Gísli Oddsson,
sem hafði verið á Seyðisfirði alllengi árabátsformaður og aflað vel.
Hann aflaði einnig mjög vel í þeim fáu róðrum sem hann var á vélbát
Arnbjargar. Maður þessi fórst á skútunni Sophia Westley í mannskaða-
veðri 7. apríl 1906. Faðir minn og Vigfús Eiríksson keyptu bát þennan
af Arnbjörgu í félagi, styrktu hann með því að þétta böndin í honum. Þá
var einnig sett í hann þilfar. Þeir settu í hann nýja vél og gerðu hann út
sumarið 1906. Báturinn hlaut þá nafnið Einingin og aflaði vel þetta
sumar. Vigfús keypti hlut föður míns í bát þessum og gerði hann út í
mörg ár.
Arnbjörg var ekki af baki dottin með vélbátaútgerðina, þó báglega
tækist til með útgerð hennar á Einingunni, en svo nefndist báturinn
eftir að hún seldi hann eins og áður er sagt.
Árið 1906 eignaðist hún norskan, hekkbyggðan bát, byggðan úr furu,
sem var 7-8 smálestir að stærð. Hún lét setja í hann Möllerupsvélina,
sem var í fyrri vélbát hennar, en skipti svo um vél á næsta ári, enda
hefur bátur þessi gengið lítið með þeirri vél. Þá var sett í hann 12
hestafla, tveggja strokka Danvél. Bát þennan skírði Arnbjörg Ásgeir
Sigurðsson. Það er tilgáta mín, að hún hafi gefið bátnum nafn Ásgeirs
þess, sem rak verslunina Edinborg í Reykjavík. Sigurður maður
Arnbjargar og Ásgeir munu hafa verið skólabræður í Möðruvallaskóla
1880-1882 og sennilega tekist með þeim góður kunningsskapur og e. t. v.
einhver viðskipti eftir að Ásgeir fór að versla í Reykjavík 1895 og
Sigurður að búa eins og áður segir. Mér þykir því sennilegt, að Ásgeir
hafi veitt Arnbjörgu aðstoð í einhverri mynd við kaupin á þessum