Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1981, Blaðsíða 181
MULAÞING
179
minn, Einar Sveinn Einarsson, hafði tvívegis misst höfuðfatið á ferðum
sínum yfir Hellisheiði. Hann fór oft yfir heiðina í vondum veðrum.
Eg kvaddi og hélt af stað. Fór með símalínunni þar til eg var kominn
norður fyrir Ketilsstaði, sem er næsti bær við heiðina. Frá Hlíðarhúsum
til Ketilsstaða er um hálfrar annarrar stundar gangur. Þegar norður
fyrir Ketilsstaði kom skildi eg við símalínuna og beygði af alfaraleið,
upp í gegnum Einbúagil sem sker sundur Hvammsbrúnir um kílómetra
sunnan við Biskupshól. Biskupshóll er aðeins sunnan við Hellisá, sem
þversker fjallið ofan frá brún og dreifist síðan um svokallaðar Hellisár-
grundir austur af Biskupshól, grösugt land og fagurt. Alfaraleiðin var
upp með Biskupshól að norðan, yfir Hellisá snertuspöl fyrir ofan hólinn
og upp Hryggi, Brattahrygg og þá stykki „milli hryggja“, síðan upp
Langahrygg sem nær upp að brúnarbrekku sem kallast Fönn. I
brekkunni er fönn sem sjaldan eða aldrei hverfur þótt heit séu sumur.
Eg held nú upp Einbúagil og Hörgárdali. Það eru daladrög í fjallinu
sunnan Hellisár. Nær efri dalurinn upp undir brúnir, en milli dalanna
eru slitrótt klettabelti. Nú var það auðséð að syrti í lofti. Eg heyrði
þungan nið. Þegar eg kom upp á brúnir gegnt Brúnavörðu sá eg koma
hraðfara og þykkar kófstrokur niður Köldukinnina og fram af brúninni
við vörðuna. Kaldakinn kallast syðsti hluti heiðarinnar. Eg herti nú
gönguna hvað eg gat til að komast að Brúnavörðu áður en veðrið færðist
meir í aukana, því mér var ljóst að svo mundi verða. 1 sama mund og eg
kom að Brúnavörðu var komin iðulaus stórhríð. Brúnavarðan stendur á
brúninni upp af Fönn. Hún er há og vel hlaðin, og út úr henni stendur
steinstautur og vísar norður til næstu vörðu. Þannig eru vörðurnar á
heiðinni, með vísi til næstu vörðu annað tveggja steinn eða tré.
Eg fór í skjól við vörðuna, sem þó reyndist lélegt var í þeim veðurofsa
sem nú var kominn. Nú reif eg upp klútinn, sem áður var getið, lagði
undir hökuna og batt hann með traustum iinút yfir húfuna.
Veðurhæð var nú orðin mikil og svo dimmt að eg sá ekki handa skil.
Samt vildi eg prófa hvernig mér gengi að finna næstu vörðu, en ef það
tækist ekki yrði eg að sjálfsögðu að leggja leið mína til baka, freista þess
að finna símalínuna, sem þarna var örstutt frá, og staulast með henni að
Ketilsstöðum. Það þó ekki álitlegt í þessu moldviðri.
Eg beygði mig dálítið í veðrið og hélt svo af stað norður Köldukinn.
Mér gekk vel að finna næstu vörðu, þótt eg yrði hennar ekki var fyrr en
eg rakst á hana. Þannig gekk norður á Miðheiðarbungu, að eg sá ekki
glóru frá mér, en gekk þó vel að finna vörðurnar, enda er heiðin þétt
vörðuð og vísir í hverri vörðu eins og áður segir. Þegar eg var kominn