Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1994, Side 147
MÚLAÞING
145
mikil rekajörð. Oft var þar margt fólk og lengi tvíbýli. Erfitt er að ná
samfelldu ábúendatali eftir húsvitjanabókum Sauðanesprestakalls, því að
fjarri fer, að þær séu færðar ár hvert og líða stundum mörg ár á milli. Til
dæmis frá 1807 til 1829 og frá 1831 til 1837 og ekki eru nærtækar heim-
ildir til að fylla í þær eyður.
Hrollaugsstaðir
Þessi eyðijörð er næst utan við Eiði og stóð bærinn skammt frá sjó
neðan við brekkur Hrollaugsstaðafjalls. Það fjall má teljast framhald af
Heiðarfjalli og nokkru hærra. Þar uppi er nú endurvarpsstöð útvarps, en
áður var þar um nokkur ár vamarliðsstöð Bandaríkjamanna. Var þá
lagður upp þangað vegur af Langanesvegi og mun þaðan hægast að fara
að Hrollaugsstöðum. Mjög víðsýnt er af fjallinu, sem er 226 m á hæð.
Góð var talin útbeit á Hrollaugsstöðum, en vont til túnræktar. Jörðin
telst fara í eyði 1964, en áður mun hún hafa verið í byggð nær óslitið
a.m.k. það tímabil, sem manntöl ná yfir.
Selvík
Norðan Hrollaugsstaðafjalls lækkar Nesið og breikkar og horfir meira
í landnorður. Stutt bæjarleið er frá Hrollaugsstöðum til Selvíkur, en sá
bær stóð við samnefnda vík austan við Selvíkurá.
Ekki er fullvíst, hvenær Selvík byggðist og ekki er vitað um nema
einn ábúanda, sem hét Bjarni Finnbogason, bónda á Fagranesi og víðar
Sigurðssonar bónda á Skálum, Ólafssonar Skorvíkings Finnbogasonar.
Kona Bjarna í Selvrk var Málmfríður Þorsteinsdóttir, fædd um 1794,
dáin í Selvík 6. október 1842. Bjami telst fæddur um 1792, dáinn í Sel-
vík 7. sept. 1843. Þau giftust 28. sept. 1818. Var Bjami þá vinnumaður í
Skoruvrk.
Þau eru skráð búandi í Selvík 1829 og síðan til æviloka, en gætu hafa
verið komin þangað um 1819. Það er því ekki nægilega rétt að telja þau
ábúendur frá 1838-1844, sem stendur í bókinni Land og fólk. Þá ætti
Selvík að hafa verið aðeins 6 ár í byggð, en var í byggð a.m.k. 15 ár eða
lengur. Þessum hjónum er svo lýst, að hann væri “hógværðarmaður” og
hún “góðsöm”. Þau ár sem manntöl voru skráð, voru þar 6 í heimili.
Getið er 5 bama þeirra, en 1 dó árs gamalt og 18 ára sonur, Finnbogi, dó
9. jan. 1840. Þótt tvær systur og yngri bróðir lifðu hann, var skiljanlegt,
að börnin í Selvík gátu ekki tekið við búi eftir foreldra sína og er ekki
vitað, að neinn hafi búið í Selvík síðan 1843.