Skagfirðingabók - 01.01.2002, Page 68
SKAGFIRÐINGABÓK
Nærri hálf öld er liðin síðan nafn Sigurðar Sigfússonar var á
allra vörum í Skagafirði. Og þótt nú sé svo komið að sviptingar
þær í atvinnustarfsemi hans sem mestu róti komu á umræðu
fólksins og kveiktu jafnvel harðar deilur og flokkadrætti, séu
fáum í dag efni til ályktana á kaffistofum vinnustaða, er ærin
ástæða til að nafn hans geymist.
Þær byggðir Skagafjarðarhéraðs sem blasa við sjónum okkar í
dag, bera ennþá sterkan svip af djörfung og athafnaþrá þessa
manns, sem kveikti bændum eldmóð til að yfirgefa kofaþústir
og reisa í þeirra stað varanlegar byggingar í takt við breytta
tíð. Og á Sauðárkróki má glöggt sjá verk hans bundin í bygg-
ingum þess atvinnuhúsnæðis sem eftir stóð að honum brott-
fluttum og jafnframt var rekstri þeirra fyrirtækja sem hann
stofnaði til, framhaldið um áratuga skeið, þótt nýir aðilar
kæmu að þeim rekstri. Þangað hafa sótt lífsviðurværi fleiri fjöl-
skyldur og einstaklingar en tölu verður á komið. Má þar nefna
Skjöld hf. og Slátursamlag Skagfirðinga, en auk þess að vera
starfrækt í byggingum þeim er Sigurður reisti, voru þau jafn-
framt framhald af starfsemi hans. [Skjöldur rann inn í Fiskiðj-
una Skagfirðing, sem enn starfar, en Slátursamlagið er nýhætt
starfsemi]. Þetta hefur máske ekki verið haft á orði sem vert
væri, hvað þá virt að verðleikum. Né heldur sú vakning í at-
vinnulífi sem hann kveikti af eldhug og brýndi menn og konur
til dáða og trúar á bjartari horfur í bættu umhverfi.
Flestum mönnum er í blóð borin viðleitni til sjálfsbjargar og
þeirrar skyldu að sjá fjölskyldu sinni farborða. Þarna er um tvo
farvegi að tefla: Annar er sá að treysta á sjálfan sig í öllu efni og
byggja á éigin framtaki og úrræðum. Fáir eru þeir sem þessa
leið velja. Flestir kjósa að þiggja laun hjá öðrum og verða þá
jafnframt að nokkru háðir því að sá er vinnuna kaupir og tekur
á sig alla áhættu, beri úr býtum það sem til þarf að standa skil
á vinnulaunum. Mörg dæmi eru um að þarna verði brestur á og
getur það átt sér ýmsar orsakir í því rekstrarumhverfi sem
vinnuveitandinn er háður.
66