Skagfirðingabók - 01.01.2002, Page 75
ÞÁ SKÚLI VAR YFIRVALD SKAGFIRÐINGA
eftir ÁSGEIR JÓNSSON
Rœtur Skúla í Skagafirði
FöÐURÆTT Skúla er runnin frá Skagafirði, en langafi hans var
Skúli Magnússon prestur í Goðdölum (fæddur 1623). Skúli
hinn eldri þótti góður kennimaður, skáldmæltur og flutti af-
burða prédikanir, svo að fólk kom að langa vegu til þess að
hlýða á hann. Þá var hann hestamaður mikill, reið jafnan greitt
og segja sumir að Skúlaskeið á Kaldadal sé við hann kennt, en
þar tók hann klár sinn svo til kostanna að hann fótbrotnaði.
Það sópaði að Skúla er hann reið um í byggð. Hann hægði
aldrei á sér er hann mætti fólki heldur kallaði: „Vík úr vegi,
barn mitt, því hér ríður presturinn á Goðdölum!" Séra Skúli
náði hárri elli. Hann lést 88 ára að aldri, 12. desember 1711, í
sama mánuði og Skúli Magnússon hinn yngri fæddist í Keldu-
hverfí og tók sá nafn eftir langafa sinn. Skúli gamli var enn-
fremur af mestu kirkju- og kennimannaætt landsins eftir siða-
skipti, sem er runnin frá ömmu hans, Steinunni laundóttur
Guðbrands Hólabiskups. Hana átti Guðbrandur með þernu á
Hólastað áður en hann kvæntist. Steinunn þessi var einnig
móðir Þorláks Skúlasonar eftirmanns Guðbrands á Hólum.
Synir Þorláks urðu samtíða biskupar, Gísli á Hólum en Þórður
í Skálholti. Auk þessara manna komu margir aðrir merkir
kennimenn frá þessu glappaskoti Guðbrands þótt eigi séu þeir
nefndir hér.
Eftir að Skúli hinn yngri kom í Skagafjörð sem sýslumaður,
grennslaðist hann fyrir um nafna sinn og langafa á meðal fólks
og fékk tvennar sögur sem hann lýsir í ævisögubroti sínu.
Annars vegar var sagt að Skúli hefði verið „stórbokki", „mikill
rubbungsprestur, öldungslegur, svæsinn og mikilfenglegur".
73