Skagfirðingabók - 01.01.2002, Page 118
SKAGFIRÐINGABÓK
Þessi byrjun á starfsemi Námsflokka Sauðárkróks þótti takast
vel og í fundargerð skólanefndar frá 5. maí 1975 er bókað:
„Allir voru sammála um að þessi byrjun Námsflokka
Sauðárkróks hefði tekist með ágætum og að sjálfsagt væri að
halda því áfram, einnig að nauðsynlegt væri að fjölga náms-
greinum."
Veturinn 1975—76
Annað STARFSÁR Námsflokka Sauðárkróks hófst samkvæmt
fjölritaðri auglýsingu sem borin var í hús 4. október 1975 þar
sem boðið er upp á eftirtaldar námsgreinar: enska, 2. flokkur
og byrjendaflokkur, danska, bókfærsla, framhaldsflokkur og
byrjendaflokkur, vélritun, fatasaumur, framhaldsflokkur og
byrjendur.
FRÁ NÁMSFLOKKUM SAUÐÁRKRÓKS
Kennsla hjá Námsflokkum Sauðárkróks hefst eftir miðjan janúar.
Hvert námskeið verður 20 kennslustundir og kenndar 2 stundir
samliggjandi að kvöldi dags einu sinni í viku.
Kennslugreinar verða eftirtaldar ef þátttaka fæst:
Enska, framhaldsflokkar Fatasaumur, framhaldsflokkar
Sænska Hnýtingar
Vélritun Bókband
Fyrirhuguð leirmunagerð getur ekki byrjað strax, en þeir sem eru
skráðir á biðlista og geta komist að, verða látnir vita ef og þegar
hún getur hafist. Þátttökugjald er eins og áður kr. 1700 í ensku,
sænsku og vélritun en kr. 2200 í fatasaumi, bókbandi og
hnýtingum og greiðist það í upphafi námskeiðs.
Guðjón Ingimundarson gefur nánari upplýsingar og tekur á
móti innritun á námskeiðin og er hann að jafnaði við í sundlauginni
kl. 5-7 og á kvöldin næstu daga. Sími 5226.
Þátttaka tilkynnist í síðasta lagi fimmtudaginn 15. janúar n.k.
Sauðárkróki, 7. janúar 1976
Skólanefndin á Sauðárkróki
116