Skagfirðingabók - 01.01.2002, Page 138
SKAGFIRÐINGABÓK
vasanum er hann allvel staddur, og því betur sem hann hefur
meiri peninga. En sjái fátæki maðurinn það fyrir, að hann
muni lenda á sveitina með sig og sína, er betra fyrir hann að
leggja á stað til Ameríku, í drottins nafni, ef hann hefur far-
gjald fyrir sig og sína. Af því jeg heyri ekki á brjefi þínu að það
sje Ameríku hugur í þjer, þá skrifa jeg ekki meira um þetta
efni. Þó get jeg bætt því við, að hjer er mikið betri framtíðar-
von fyrir uppvaxandi kinslóðina, en á aumingja gamla íslandi;
það er ólíkt í alla staði.
Jeg hefði haft ráð með að rita þjer mart fleyra hjeðan. En jeg
verð að láta hjer staðar numið í þetta sinn. Jeg er orðinn bæði
stirður og skjálfhentur og þoli ekki að sitja við skriptir nema
litla stund í einu. Því miður get jeg ekki sent ykkur neinar
mindir af börnum okkar, við eigum ekki annað en gamlar
mindir sem eru of ljótar að senda þær í aðra heimsálfu. Kona
mín biður ástsamlega að heilsa Hólmfríði systur sinni með
bezta þakklæti fyrir tilskrifið ásamt alt elskulegt og systurlegt.
En ekki getur hún sent henni sjerstakt brjef og er það mjer að
kenna, sjálf getur hún ekki skrifað. Þetta brjef verður að duga
ykkur öllum. Jeg [bið] þig því að lofa þeim mæðgum lesa það,
sömuleiðis Margrjetu systir minni. Kona mín er orðin fremur
heilsulasin og þreytt eins og jeg, þó erum við ekki orðin þeir
bjálfar, að við getum ekki talað spaugsyrði við og við.
Mig langar til að biðja þig að senda mjer fáeinar línur og
lofa mjer að vita hvort þú fær þetta brjef, en ekki er víst þú fáir
það endurgoldið. Þó getur það skeð, ef mjer hrakar ekki því
meira með heilsuna. Svo sendum við ykkur öllum hjartanlega
kveðju og biðjum drottinn að blessa ykkur [...] farsæla á allri
ykkar lífstíð. Þinn ónýtur bróðir
G. Skúlason
P.S. Kona mín sendir Brynjólfi beztu þökk fyrir tilskrifið.
G.S.
136