Orð og tunga - 01.06.2017, Page 31
Alda B. Möller: Íslenskukennsla í Bessastaðaskóla … 21
4.3 Páll Melsteð
Páll Melsteð (1812–1910) kom í skólann haustið 1828 og lauk brott far-
ar prófi 1834, m.a. með vitnisburðinum „meget got“ í íslenskum stíl
(Bps. 6a). Endurminningar hans geyma lýsingu á náminu og skóla-
lífinu þessa vetur (Páll Melsteð 1912:16–50).
Bóknám Páls byrjaði reyndar á því að faðir hans lét hann skrifa
upp stutta málfræði á íslensku, „líklega eftir Rasks bókum“, og lét
hann læra. Páll nefnir íslenskukennslu Björns Gunnlaugssonar en
fjallar ekkert um hana og sagði Björn ekki hafa verið eftirtektarsaman
kennara. Um Hallgrím Scheving latínukennara segir Páll að í tímum
hjá honum hafi vaknað hjá sér umhugsun um móðurmálið og löngun
til að vanda orðavalið. Í efri bekk var Páll í dönsku hjá Sveinbirni
Egilssyni en sagðist ætíð hafa lært íslensku í tímunum því að hann
var „meistari að þýða önnur mál á íslenzku“. Í sögukennslunni hjá
Sveinbirni segir hann nokkuð af tímanum hafa farið í að snúa dönsku
máli kennslubókarinnar á íslensku en af því hafi hann lært íslensku
en ekki sögu. Páll kvað kennarana fáar eða engar bækur hafa keypt
og „menn lifðu á moði fyrri tíma“. Skólaveinar lifðu og hrærðust í
sögnum um hetjuöld Grikkja og Rómverja og fornöld Norðurlanda.
Þeir lásu klassísk latnesk og grísk rit í tímunum en „Njálu, Grettlu
og Eglu á svefnloftunum“. Þröngt og óhreinlegt var í skólanum en
sveinarnir kunnu þó að skemmta sér, m.a. með glímum, tvísöng og
flutningi leikrita.
4.4 Árni Thorsteinsson
Árni Thorsteinsson (1828–1907), síðar landfógeti, var í Bessastaðaskóla
1844–1846 og síðan eitt ár í Reykjavíkurskóla. Hann skrifaði löngu
síðar endurminningar sínar frá Bessastaðaskóla (Árni Thorsteinsson,
án ártals, Minningar úr Bessastaðaskóla).12 Kennsluna og námsefnið
taldi hann hafa verið orðið úrelt enda kennarar orðnir rosknir en
þeir nutu virðingar skólapilta vegna fræðimennsku sinnar. Hann
lýsir mest þeim áhrifum sem Sveinbjörn Egilsson hafði á nemendur
og segir framfarir sem um þær mundir urðu í íslensku máli og bók-
mennt um hafa verið honum öðrum fremur að þakka og að hann hafi
með málsnilld sinni haft mikil áhrif á þá. Hann hafi bæði byggt á sam-
tímamálinu og tekið úr fornu máli það sem best átti við. Hann segir
enn fremur: „Engum var sem honum lagið með nýgjörfinga í málinu,
12 Óprentuð ritgerð án safnmarks.
tunga_19.indb 21 5.6.2017 20:27:32