Orð og tunga - 01.06.2017, Page 35
Alda B. Möller: Íslenskukennsla í Bessastaðaskóla … 25
mikla eða litla þekkíngu pilturinn sýnir í einhverri einstakri
vísindagrein, heldur eptir því, hversu ljós hugsun lærisveins-
ins er, og hversu vel, skýrt og hreint, hann getur orðfært hugs-
anir sínar.
Reglugerðin frá 1850 var í gildi fyrir Reykjavíkurskóla til 1877 er
önnur leysti hana af hólmi en sú gilti til 1904. Í þeim báðum var vægi
íslensku í stundaskránni aukið (Heimir Þorleifsson (ritstj.) 1975:112).
6 Íslenskukennslan 1846–1848
6.1 Íslenskukennslan fyrsta veturinn í Reykjavík
Úr Bessastaðaskóla fluttust 33 skólasveinar en 27 nýir nemendur
fengu skólavist þetta haust eftir inntökupróf í latínu, grísku, dönsku,
sagnfræði, landafræði og reikningi. Nemum var síðan skipt í þrjá
bekki eftir frammistöðu (Sveinbjörn Egilsson 1847:1–7).
Vorið 1846 skipaði konungur Konráð Gíslason málfræðing kennara
við skólann og var honum m.a. ætlað að kenna íslensku. Konráð
hafði sótt um kennslustöðu á þeirri forsendu að efla ætti kennslu í
íslensku, dönsku og þýsku. Hvað móðurmálið snerti sagðist hann
þekkja sögu þess og fræði betur en aðrir og taldi að málsaga ætti að
vera hluti íslenskukennslunnar en kvað íslenskt mál samtímans sér
einnig hugleikið og vísaði til vinnu sinnar við útgáfu Fjölnis sem
hefði verið „boðberi hreintungunnar og stílfegurðar og önnur rit ekki
betur skrifuð á nútímamálinu“ (Aðalgeir Kristjánsson 2003:269‒270).
Konráð kom þó ekki til starfa, bæði af persónulegum ástæðum og
einnig vegna þess að hann var þá kominn á þá skoðun að rannsóknum
í norrænum fræðum væri varla hægt að sinna nema í Kaupmannahöfn
(Aðalgeir Kristjánsson 2003:126). Sveinbjörn Egilsson rektor tók þá að
sér íslenskukennsluna en fyrsta ár skólans var íslenskur stíll aðeins
kenndur einn tíma í viku í hverjum bekk. Um námsefni í íslensku
þennan vetur fórust honum svo orð (Sveinbjörn Egilsson 1847:8–10):
Í íslenzku: hèr hefi r einúngis verið 1 stíll í viku í hverjum
bekk. Stílsefnið í 1. bekk var tekið af „Malings store og gode
Handlinger“, og stundum valdar smásögur og ritlíngar úr
þjóð blaði Dana (Folkebladet). Í 2. bekk var stílsefnið ýmist
tekið úr dönsku eða latínu; í 3. bekk ýmist úr dönsku, latínu
eða þýzku.
tunga_19.indb 25 5.6.2017 20:27:32