Orð og tunga - 01.06.2017, Page 45
Alda B. Möller: Íslenskukennsla í Bessastaðaskóla … 35
frá upphafi ætlað til bráðabirgða enda vanbúið og of þröngt til að
skólinn gæti starfað samkvæmt fyrirmælum yfirvalda. Það var helsta
brotalömin í stjórnun skólans og stóð honum einnig mest fyrir þrifum
í faglegum efnum. Á kennaraskort reyndi varla því að aðeins voru
tvær kennslustofur í skólanum og því ekki rúm fyrir fleiri kennara.
Fullyrða má að íslenskukennslan hafi liðið mjög fyrir þessi vandræði
og þau komu líka í veg fyrir kennslu í ýmsum öðrum greinum. Latína,
gríska og trúfræðigreinar voru burðarásar starfsins og í skugga
þeirra stóðu aðrar greinar alla tíð. Góður vilji yfirvalda dugði ekki
til framfara í kennslumálum því að getu og röggsemi til verklegra
framkvæmda skorti.
Skýrslur kennara geyma sögu kennslunnar á Bessastöðum og margt
fleira. Þær sýna að íslenskukennsla hófst af nokkrum metnaði haustið
1806 og greina fyrstu skýrslur frá stílæfingum, námi í íslenskum
bókmenntum og málfræði, þrjá tíma vikulega í hvorum bekk. Fljótlega
hófst þó undanhaldið í efri bekk að beiðni nemenda og kennarans á
þeirri forsendu að þar sætu fullorðnir menn sem væru vel að sér í
móðurmálinu og þyrftu heldur að læra þýsku og landafræði. Þegar
svo stærðfræðin fékk aukið rými í stundaskránni 1822 var íslenska
sem námsgrein endanlega útilokuð úr efri bekk til loka skólans.
Kennslan fólst í áratugi mest í þýðingum úr dönskum og latneskum
lestrarbókum og uppistaða námsins var stílagerð en stundum var
þó fjallað um íslenskar bókmenntir. Íslenskt mál var leiðrétt hvað
varðaði almenna málnotkun en allt bendir til að stafsetning hafi verið
mjög margbreytileg á þessum tíma. Lestrarbækurnar fyrir íslensku
stílana voru flestar 18. aldar bókmenntir en nýútkomin íslensk tímarit
og tímamótaverk á íslensku voru frekar notuð í dönskukennslu eða
latínunáminu hjá sömu nemendum.
Á nútímamáli yrði málakennslan í Bessastaðaskóla líklega kölluð
þverfagleg og víst er að íslenskunámið fór ekki aðeins fram í tímum
í íslenskum stíl heldur ekki síður í latínu- og grískutímum, og jafnvel
líka dönsku- og sögutímum. Ástæðan var að hluta til sú að þýddar
námsbækur, sem Skólastjórnarráðið gerði ráð fyrir að yrðu prentaðar,
urðu ekki að veruleika, heldur hlaut hver kennari að þýða kennsluefni
sitt á íslensku í tímunum og nemendur að skrifa niður. Það varð í
raun gæfa skólans því að allar heimildir herma að þar hafi miklir
málvöndunarmenn verið að verki, einkum þeir Sveinbjörn Egilsson,
sem kenndi grísku, sögu og dönsku, og Hallgrímur Scheving sem
kenndi latínu.
Náminu í Bessastaðaskóla má líklega einnig lýsa með því að þar hafi
tunga_19.indb 35 5.6.2017 20:27:34