Orð og tunga - 01.06.2017, Page 172
162 Orð og tunga
− Frændsemisorð (aukaföll, t.d. bróður)
− Veik kvenkynsorð (nf./þf. ft., t.d. konur)
− Þf. et. af kk.-orðum sem enda á -urr í físl. (fjǫtur, þiður, Gizur o.s.frv.)
− Nf. et. kv., nf./þf. ft. hk. af annar (önnur)
− Nokkurr, nokkurt o.s.frv.
− Nf. et. kv., nf./þf. ft. hk. af okkarr, ykkarr, yðvarr (okkur, ykkur, yður)
− Nf./þf. ft. af sumar (sumur)
− Nf./þf. ft. hk., ef. ft. af fjórir (fjögur, fjögurra)
o.s.frv.
Tafla 2. Yfirlit yfir hvar -ur er upprunalegt, skv. Jóni Þorkelssyni (1863:6–10).
Megintilgangur Jóns með þessari athugun er að lýsa dreifingu -r og -ur
að fornu en af eftirfarandi orðum hans (1863:5–6) má greina að hann
hefur hugsanlega einnig viljað leiðbeina þeim sem vildu nú greina
þarna á milli: „Þó megum vèr eigi ætla, að fornmenn hafi allsstaðar
ritað og framborið r, þar sem vèr nú ritum og framberum ur. Þeir
sögðu t. d. aldrei nokkr ár, fjögr ár, sem eg sè að sumir nú rita, er vilja
hafa forna stafsetning, en eru eigi nógu kunnugir fornmálinu.“
4.4 Aðgreining æ/œ
Jón greindi á milli tvenns konar æ-hljóða eftir uppruna, æ (af á, t.d.
sætta af sátt) og œ (af ó, t.d. dœma af dómur), en þau höfðu fallið saman
í framburði um miðja 13. öld (Stefán Karlsson 1989:7). Halldór Kr.
Friðriksson (1859:46–47, 56–72) vildi einnig greina á milli tvenns
konar æ-hljóða en virðist ekki hafa lagt áherslu á það í kennslu.61
Örfáir lærðir menn á 19. öld, t.d. Konráð Gíslason í seinni skrifum
sínum, tíðkuðu þessa aðgreiningu en hún virðist alveg hafa horfið
við lok aldarinnar.
Eins og sést á athuguninni hér fyrir framan (undirkafla 4.2) þá
notaði Jón Þorkelsson tvenns konar æ-tákn nær alla tíð. Enginn
annar greindi eins lengi og jafnskipulega og hann á milli þessara
upprunalegu æ-hljóða.
61 Við lauslega athugun á leiðrétt ingum Halldórs Kr. Friðrikssonar á skólastílum
nemenda í Lærða skólanum árin 1855, 1860, 1870, 1875, 1881 og 1886 hef ég ekki
getað fundið dæmi um aðgreiningu eða leiðrétt ingar á æ-hljóðum eft ir uppruna.
Um skólastílana sjá Braga Þorgrím Ólafsson (2004) og Heimi Frey van der Feest
Viðarsson (2014:18) og (2017, í þessu heft i Orðs og tungu).
tunga_19.indb 162 5.6.2017 20:28:00