Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2017, Page 57
56
bolsévikar tóku völdin í Rússlandi. Aðdragandann má rekja aftur til alda-
mótanna 1900 en þá hófst skipuleg umræða um kosti sósíalismans. En sú
umræða hafði verið háttvís, kurteisleg og vægast sagt laus við róttækni.
Íslensk verkalýðshreyfing var því ung og veikburða enda íslenskt samfélag
enn að stofninum til sveitasamfélag.34
Þó voru ýmsar breytingar í farvatninu og þótt menningar- og félagsleg
áhrif fyrri heimsstyrjaldarinnar hafi verið önnur á Íslandi en víðast annars
staðar í Evrópu voru efnahagsleg áhrif hennar töluverð. Verulega dró úr
hagvexti og það var ekki fyrr en árið 1924 að efnahagslífið fór að rétta úr
kútnum eftir langt samdráttarskeið.35 Þetta hafði sín áhrif á kjör verkafólks
og árið 1921 var kaupmáttur árstekna verkamanna í Reykjavík til að mynda
lægri en hann hafði verið í upphafi stríðsins. Þá má heldur ekki gleyma því
að Ísland var fátækt land og kjör og aðstæður þeirra lægst settu, ekki síst
þeirra sem voru að reyna að fóta sig í þéttbýlinu, oft afar dapurleg.36
Boðskapur um byltingu gat vakið athygli þeirra sem bjuggu við slíkar
aðstæður og að því leytinu til má gera ráð fyrir að hér hafi verið jarð-
vegur fyrir róttækar stjórnmálahugmyndir. Aðsend grein sem birtist í
Alþýðublaðinu í lok ársins 1921 bendir í þessa átt. Höfundurinn lýsti því
fyrir lesendum hvernig hann varð bolséviki. Hann segist hafa verið 14 ára
gamall, elstur í átta systkina hópi. Foreldrarnir unnu baki brotnu, en vinna
þeirra dugði skammt, fjölskylduna „skorti í flestu sem nauðsynlegt var.“
Sjálfur segist höfundur hafa haft hug á að læra meira eftir fermingu, en að
hann hafi þurft að kæfa þá þrá enda hafi honum verið „fyrirfram hugaður
staður að standa á.“ Hann reif sig því upp á hverjum morgni klukkan sex
til að reyna að „vinna [s]ér og [s]ínum litlu systkinum brauð“. En allt kom
fyrir ekki, þar til hann lenti loks fyrir tilviljun um borð í botnvörpungi þar
sem vel klæddur verkstjóri bauð honum að taka þátt í uppskipun á fiski.
Þegar vinnunni var lokið komst hann hins vegar að því að hann fengi ekk-
34 Um sósíalíska umræðu á Íslandi upp úr aldamótunum 1900 sjá Ragnheiður Krist-
jánsdóttir, Nýtt fólk, 74–88. Um upphafsár verkalýðshreyfingarinnar sjá Sumarliði
Ísleifsson, Í samtök. Saga Alþýðusambands Íslands, (Reykjavík: Forlagið og ASÍ, 2013),
bls. 23–47.
35 Guðmundur Jónsson, „Hagþróun og hagvöxtur á Íslandi 1914–1960“, Frá kreppu
til viðreisnar. Þættir um hagstjórn á Íslandi á árunum 1930–1960, ritstj. Jónas Haralz,
(Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 2002), bls. 9–39, hér bls. 29–35; Gunnar
Þór Bjarnason, Þegar siðmenningin fór fjandans til, (Reykjavík: Mál og menning,
2015), bls. 293–305.
36 Þorleifur Friðriksson, Við brún nýs dags. Saga Verkamannafélagsins Dagsbrúnar
1906–1930, (Reykjavík: Efling og Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands, 2007), bls.
115–142 og víðar. Um kaupmátt verkamannalauna sjá töflu á bls. 140.
RagnheiðuR KRistJÁnsdÓttiR