Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2017, Qupperneq 176
175
Silfurtúnglinu sem „tilbrigði við Atómstöðina“, sem er að sumu leyti rétt
þótt sömuleiðis sé mikilvægt að hafa í huga að aðeins er horft til afmarkaðs
hluta verkanna þegar um pólitísku víddina er rætt.30 En vissulega svip-
ar Lóu um margt til Uglu, sögukonu og aðalpersónu Atómstöðvarinnar.
Báðar eru þær nefndar eftir fuglum. Líkt og Ugla flyst Lóa úr sveit til
Reykjavíkur og báðar gera þær það með tónlistariðkun í huga, Ugla vill
læra á orgel en Lóu hefur verið lofað frægð og frama sem söngkona. Það er
því hugmyndin um að í Reykjavík sé eitthvað að finna sem ekki er til staðar
í sveitinni sem knýr á um flutninginn í báðum tilvikum.
Í grein sem Jónas Guðmundsson skrifaði í tilefni af enduruppsetn-
ingu Silfurtúnglsins um miðjan áttunda áratuginn er hins vegar leitast við
að finna aðra leið að verkinu sem felur í sér að horft er í kringum – eða í
gegnum – pólitíska boðun textans. Jónas heldur því fram að verkið hafi
verið „torræðara“ við fyrstu uppsetningu en það svo er aldarfjórðungi
síðar. Þunginn í pólitísku vopnaskaki í menningarlífinu á fyrstu áratugum
kalda stríðsins var slíkur, segir Jónas, og mótaði í svo miklum mæli viðtök-
urnar að aðrir þættir Silfurtúnglsins urðu bókstaflega ósýnilegir:31
Þegar Silfurtúnglið var sýnt árið 1954 var litið á leikinn sem innlegg
í herstöðvamálin. Þetta var pólitískur leikur, þar sem á táknrænan
hátt var lýst aðsteðjandi hættu, sem sífellt vofir yfir smáríkjum, sem
láta bjóða sér upp á stríðsmarsa stórveldanna. Það gefur auga leið,
að um minna mátti nú muna en svona leik, til þess að bókmennta-
fræðingar landsins færu að sjá alls konar ofsjónum.32
Það er rétt hjá Jónasi að fjarlægð, bæði menningarleg og söguleg, kallar
fram nýja leshætti eins og greining hans sjálfs er dæmi um.33 Það eru jafn-
30 Halldór Guðmundsson, Halldór Laxness. Ævisaga, bls. 579. Þess má geta að í Húsi
skáldsins II bregður Peter Hallberg út af þeirri venju sinni að fjalla um verk Hall-
dórs í tímaröð og ræðir Silfurtúnglið í sömu andrá og Atómstöðina.
31 Jónas Guðmundsson, „Silfurtúnglið á öðru kvertéli“, Tíminn, 30. apríl, 1975,
bls. 9.
32 Sama rit, bls. 9.
33 Engu að síður virðist Jónasi yfirsjást hversu mjög krafan um pólitískar viðtökur
er innbyggð í orðræðu pólitískra verka og skilur þau – og viðtökuferli þeirra – frá
þeirri fagurfræðilegu eða menningarsögulegu listrýni sem gjarnan mætir verkum
sem ekki eru jafn boðandi. Taka verður fram að þær almennu forsendur og hug-
tök sem hér er stuðst við (pólitísk verk, fagurfræðileg listrýni, boðandi verk) eru
ónákvæm en ætlunin er að benda á ákveðin grunnatriði, eins og það að listaverk
eru misjafnlega pólitísk, sem svo margflækjast þegar sjónarhornið beinist að til-
teknum verkum í afmörkuðu menningarlegu samhengi. Verk sem virðast ópólitísk
„TUNGLIð, TUNGLIð TAKTU MIG“