Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2017, Blaðsíða 196
195
Húsbóndaskipti
Hvað breytist við flutning Lóu til Reykjavíkur? Jú karlmennirnir tveir í lífi
hennar, eiginmaður hennar og faðir, sitja eftir í þorpinu sem Lóa yfirgefur.
Þar eru þeir jafnframt áhrifalausir um það hvernig lífi hennar vindur fram.
Enn miðaðist hin hefðbundna tilfærsla stúlku yfir í hlutverk fullorðinnar
konu við hjónaband, og hafði þá lengi verið rætt um það sem átti sér stað
sem „húsbóndaskipti“, ekki var búist við öðru en að konur væru áfram,
þrátt fyrir aukin formleg réttindi, undirseldar vilja karlmanna, fyrst föður
og síðan eiginmanns.95 Þótt sjaldan væri um það rætt opinberlega snerist
regluvirki feðraveldisins að hluta til um yfirráð yfir kynferði og kynver-
und kvenna, en í því samhengi er hlutverk föðurins að varðveita meydóm
dótturinnar þar til að hjónabandi kemur, og eiginmaðurinn sem tekur við
konunni frá föðurnum hefur uppfrá því einkaleyfi á kynferðislegu sam-
neyti við hana.
Ungar konur sem flytja til borga og eru þar útivinnandi eiga þess hins
vegar kost að haga heimilishaldi sínu að nokkru leyti eftir eigin höfði,
þær búa einar, jafnvel með sérinngang – tegundaskilgreiningin var „ein-
hleypa konan“ – og geta boðið hverjum sem þær vilja í heimsókn. Borgir
voru enda ávallt taldar ungum konum hættulegar og var Reykjavík þar
engin undantekning. Sveitasamfélagið fyrirleit höfuðstaðinn og sleppti
ekki höndunum af dætrum sínum þangað ef hjá því var komist.96
Laxness hafði fjallað um þessi efni nokkrum árum fyrr í Atómstöðinni, en
eins og lesendur þeirrar bókar muna líður ekki á löngu þar til sveitastúlkan
Ugla er farin að stunda kynlíf með nær ókunnugum karlmanni eftir að hún
fer til borgarinnar. Í verki Halldórs er það hins vegar ekki syndafall, það er
í raun ekkert sérstakt, og líkt og hjá Uglu sjálfri er viðhorf söguhöfundar
95 Erla Huld Halldórsdóttir, Nútímans konur. Menntun kvenna og mótun kyngervis á
Íslandi 1850–1903, Reykjavík: Sagnfræðistofnun – RIKK og Háskólaútgáfan, 2011,
bls. 88–92.
96 Hér er auðvitað rétt að slá ákveðna fyrirvara, og mætti t.d. segja að erfitt sé fullyrða
nokkuð umfram það að umræða tímabilsins og söguleg þekking gefi þessi viðhorf í
skyn. Einnig mætti velta vöngum yfir hérlendum heimildum um viðhorf sem þessi.
Jafnframt mætti spyrja hvernig ímynd sveitasamfélagsins og „dyggðugra“ lífshátta
þess spili inn í umræðuna. Varðandi fyrstnefnda atriðið er það að segja að slíkir
fyrirvarar eiga við um alla túlkun á fortíðinni, en hafa þó jafnan ekki staðið í vegi
fyrir ályktunum, og að ólíklegt verði að þykja að virkni feðraveldisins hér á landi
skeri sig frá virkni þess í okkar heimshluta. Varðandi síðastnefnda fyrirvarann er rétt
að ítreka að því er einmitt haldið fram að leikrit Halldórs sé gagnrýnið á dyggðum
prýdda ímynd sveitasamfélagsins.
„TUNGLIð, TUNGLIð TAKTU MIG“