Breiðfirðingur - 01.05.2018, Page 131
BREIÐFIRÐINGUR 131
Gamla konan fylgdi mömmu þar sem bíllinn stóð tilbúinn til fararinnar og
farþegarýmið óðum að fyllast af fólki. Lagt var í hann upp úr átta og fyrir hönd
um voru brattar brekkur Fróðárheiðarinnar.
Næst segir sagan af því þegar hún ásamt fleira fólki stóð úti á miðri Fróðár
heiði, aðeins utan við vegarslóðann þar sem bíllinn hafði verið stöðvaður. Hún
hafði orðið fárveik í bílnum á leið upp heiðina, eftir vegi sem varla var nema slóði.
Bíllinn, sem var hálfkassabíll, var um tvo tíma að skrönglast upp og fékk hún
að fara snöggvast út úr bílnum og ældi hraustlega. Reynslan af þessari fyrstu
raunverulegu bílferð hafði ekki verið góð þennan tíma sem ferðin upp tók. Hún
var sjóveik alla leiðina, að henni fannst.
Það sást aðeins örla í jökulinn og henni fannst sem hún kveddi þar með sínar
heimaslóðir. Hún gerði sér ekki grein fyrir því hvað var í vændum.
Þótt hún hresstist verulega við það að fara út úr bílnum um stund fylgdist hún
lítt með sveitunum sem hún ók nú um á leið suður. Stoppað var á Vegamótum
svo hægt væri að fara á salerni og síðan haldið áfram.
Hún minnist þess þó að hafa ekið yfir tvær risastórar brýr að henni fannst en
slík mannvirki voru óþekkt úti á nesinu. Á Sandi voru bílar mjög sjaldgæfir hlutir
sem komu úr allt öðrum heimi enda engir raunverulegir vegir að fara um.
Hún veit ekki fyrr en bíllinn, sem er bæði pallbíll og rúta, ekur inn í miðja
mjög stóra húsaþyrpingu með mjög stórum húsum. Henni finnst hann aka lengi
í þessari borg og að endingu fer hann yfir enn eina brúna og út í eyju þar sem eru
gríðarlega stór verslunarhús og mikið af allskyns bílum. Svo mikið að hún hefur
aldrei séð annað eins.
Þegar bíllinn stoppar spyr hún konuna sem situr hjá henni og hefur látið sér
annt um hana alla leiðina, einkum á meðan hún var lasin.
Er þetta Reykjavík?
Nei væna mín, þetta er Borgarnes. En hvað heitir þú? spyr konan.
Ég heiti Katrín, Katrín Sigurveig Guðgeirsdóttir.
Nú tilkynnir bílstjórinn að farþegar til Reykjavíkur fari með Fjallfossi sem
er að koma hér að bryggju eftir klukkutíma og síðan taki við þriggja til fjögurra
klukkustunda ferð til Reykjavíkur.
Þegar búið var að lesta skipið með ýmsum varningi sem átti að fara til
höfuðstaðarins í Reykjavík fór fjöldi farþega um borð. Kata var óvön slíku
fjölmenni sem allt var henni ókunnugt og hafði aldrei séð jafnstórt skip.
Þótt Kata héldi sér til hlés í ferðinni nálægt dyrunum á farþegarýminu, sem