Tímarit Máls og menningar - 01.02.2010, Page 94
S t e fá n Pá l s s o n
94 TMM 2010 · 1
þess að kryfja þetta tímabil, skýra orsakir efnahagshrunsins og reyna að
skilja afleiðingar þess.
Þetta uppgjör er raunar hafið, en nú þegar hafa komið út svo margar
bankahrunsbækur að bókmenntafræðingurinn Guðni Elísson treystir
sér til að lýsa því yfir að þær myndi nú sérstaka grein (e. genre) í íslenskri
menningarsögu.1 Þótt endalaust megi togast á um hvaða bækur eigi að
falla undir skilgreininguna, má segja að þær stappi nærri því að fylla
tuginn og fátt bendir til annars en að þeim eigi eftir að fjölga á næstu
misserum.
Þessi titlafjöldi er athyglisverður í ljósi þess hversu lítil hefð er fyrir
bókum um samtímapólitísk málefni hér á landi. Deilurnar um veru
Bandaríkjahers á Miðnesheiði voru í áratugi helsta þrætuepli íslenskra
stjórnmála. Samt virtist enginn treysta sér til að rita bók um herstöðva
málið og sögu þess meðan á kalda stríðinu stóð og lítið bólar á fyrstu
heildstæðu rannsókninni í bókarformi á því hvernig brottför hersins bar
að. Sömu sögu er að segja um landhelgismálið sem brann á þjóðinni í
aldarfjórðung án þess að rata almennilega á bók fyrr en löngu síðar.2
Laxaveislur og jötunmóður
Þegar greinarhöfundur var að bisa við að læra samtímasögu í Háskól
anum fyrir tæpum fimmtán árum, blöstu við kyndugir bókalistar í
stjórnmálahlutanum. Langflestar heimildirnar voru ævisögur – helst
sjálfsævisögur – gamalla stjórnmálaleiðtoga sem vörðu ellinni í að reyna
að tryggja sinn sess í sögunni og jafna gamla reikninga. Í ritgerðum
okkar stúdentanna gjömmuðu svo löngu dauðir foringjarnir hver á
annan, oftar en ekki í fyrstu persónu.
Minningabækur stjórnmálamanna áttu um langt árabil örugg sæti
við topp metsölulista. Fyrir jólin 1980 gáfu þeir Anders Hansen og
Hreinn Loftsson út verkið Valdatafl í Valhöll, sem rakti aðdraganda
stjórnarmyndunarinnar sama ár og væringar arma innan Sjálfstæðis
flokksins sem kenndir voru við Gunnar Thoroddsen og Geir Hallgríms
son, en höfundarnir drógu mjög taum þess síðarnefnda. Bókin seldist
eins og heitar lummur. Ekki var áhugaleysi almennings því skýringin á
því hversu lítið var gefið út um samtímapólitík.3
Rangt væri þó að láta eins og bókmenntagreinin hafi verið fullkom
lega vanrækt hér á landi. Baldur Kristjánsson og Jón Guðni Kristjánsson
sendu árið 1984 frá sér bókina Verkfallsátök og fjölmiðlafár sem fjallaði
rækilega um verkföll opinberra starfsmanna og starfsfólks á prentmiðl
um þetta sama ár. Árið 1992 hjólaði blaðamaðurinn Halldór Halldórs